Innlent

Veita ekki gistileyfi sökum neyðarástands

Sæunn Gísladóttir skrifar
Theódóra Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar.
Theódóra Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar.
Bæjarráð Kópavogsbæjar tók í síðustu viku ákvörðun um að veita neikvæðar umsagnir um ný rekstrarleyfi fyrir gististaði í flokki II á svæðum þar sem deiliskipulag gerir ráð fyrir að sé íbúðabyggð.

Um er að ræða gististaði þar sem eigendur búa ekki á staðnum heldur leigja út íbúðir. Þeir sem óska eftir leyfi í þeim flokki munu þá líklega ekki fá þau. Theódóra Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs, segir að með þessu sé verið að bregðast við neyðarástandi í húsnæðismálum.

„Á meðan neyðarástand ríkir á íbúðamarkaði viljum við takmarka atvinnustarfsemi þar sem deiliskipulag er íbúðabyggð. Við viljum ekki að varanleg búseta í hverfum þar sem deiliskipulag er íbúðabyggð víki fyrir gististarfsemi með þeim hætti sem sést hér, sérstaklega í miðborginni,“ segir Theódóra.

„Þetta snýst um það að á þeim svæðum þar sem deiliskipulag gerir ráð fyrir íbúðabyggð höfum við heimild í lögunum um að samþykkja minniháttar atvinnustarfsemi, en ef þetta er orðin umfangsmikil atvinnustarfsemi getur sveitarstjórn veitt neikvæða umsögn. Við höfum ákveðið að gera það,“ segir hún.

Í Kópavogi finnur bæjarráð fyrir aukinni aðsókn fyrir gististaði. „Leyfisveitingar vegna gististaða í flokki II í íbúðabyggð leiðir óhjákvæmilega til þess að framboð fasteigna fyrir fasta búsetu verður enn minna. Vegna þessara aðstæðna sem nú eru uppi teljum við að rekstur gististaða í þeim flokki samræmist ekki búsetu þar,“ segir Theódóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×