Innlent

Jökullinn dauðadæmdur og lónið mun stækka

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Breiðamerkurjökull skríður árlega fram um 300 metra á ári en hopar þó þegar upp er staðið um 300 metra því lónið nagar 600 metra af jökulsporðinum á móti. Vísir/JóiK
Breiðamerkurjökull skríður árlega fram um 300 metra á ári en hopar þó þegar upp er staðið um 300 metra því lónið nagar 600 metra af jökulsporðinum á móti. Vísir/JóiK
„Jafnvel þótt loftslagið hlýnaði ekkert meira en orðið er þá er þessi jökull dauðadæmdur,“ segir Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur um sókn Jökulsárlóns á sporð Breiðamerkurjökuls.

Um 1930 var Jökulsárlón ekki orðið til. Helgi segir að árið 1934 hafi rétt sést í lónið en í dag sé það orðið þrjátíu ferkílómetrar og nái átta kílómetra inn að jökulsporðinum.

„Jökullinn er á hraðri ferð norður og þetta mun halda áfram með auknum hraða. Þróunin verður ekki stöðvuð fyrst hún er komin af stað,“ ítrekar Helgi.

Orsök þess ferlis sem hefur verið í gangi í Jökulsárlóni er hlýnandi loftslag í kjölfar langvarandi kuldaskeiðs frá því fyrir árið 1400 og fram til 1920 að sögn Helga. „Landið undir þessum jökli, tuttugu kílómetra upp eftir, er fyrir neðan sjávarmál. Jökullinn liggur þarna í rennu sem nær niður fyrir sjávarmál. Og þegar þetta byrjar á annað borð þá fer bara af stað ferli sem ekki verður viðsnúið,“ segir hann.

Helgi telur að um næstu aldamót muni lónið hafa náð að éta sig um tuttugu kílómetra til viðbótar inn í landið og sporður Breiðamerkurjökuls hafa hopað að sama skapi. „Um þetta er erfitt að spá því þetta gerist hraðar en menn töldu enda vildu þeir ekki fullyrða of mikið. En það er alveg hægt að giska á það að þetta lón verði eftir hundrað ár komið langleiðina inn að Esjufjöllum,“ segir hann.

Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur. Fréttablaðið/Stefán
Sumir telja sig sjá að jökunum, sem eru helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn, hafi fækkað á Jökulsárlóni en Helgi segist ekki hafa athuganir sem sýni það. Fólki geti þó sýnst svo vera því lónið stækki stöðugt og jakarnir dreifist því á stærra svæði.

„Eitt er víst að það er að aukast framboðið af jökum en það má vera að þeir bráðni bara svo hratt. Á hverju flóði kemur straumur af tíu gráðu heitum sjó þarna inn, það er mjög mikill varmi,“ segir jarðeðlisfræðingurinn. Hlýtt loft á sumrin hafi líka sín áhrif. Fyrirsjáanlegt sé að á endanum fylli sjórinn lónstæðið.

„Ísstraumurinn sem kemur innan úr Vatnajökli bætir bara upp helminginn af því sem brotnar úr sporðinum,“ segir Helgi sem aðspurður kveður þó ekki líkur á því að jakar hætti að skila sér úr jöklinum niður lónið. Ekki í bili að minnsta kosti.

„En þegar jökullinn er kominn 25 kílómetra þarna upp eftir þá fer hann upp á land. Þá er bara lónið fyrir framan. En á meðan sporðurinn flýtur fram í lónið þá skilar hann jökum. Hann þarf að draga sig upp úr þessari rennu til þess að jakar hætti að myndast,“ dregur Helgi upp framtíðarmyndina sem sé óumflýjanleg. Ekki nema það komi ísöld - og hún sé ekki í kortunum.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu





Fleiri fréttir

Sjá meira


×