Innlent

Telur nauðsynlegt að minnka sóun á tíma og orku sjúklinga og fagfólks

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Óttar vill nýta reynslu og innsæi Láru og annarra sem glímt hafa við krabbamein til að einfalda sjúklingum og aðstandendum lífið.
Óttar vill nýta reynslu og innsæi Láru og annarra sem glímt hafa við krabbamein til að einfalda sjúklingum og aðstandendum lífið. Vísir/Stefán
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, tekur undir ábendingar Láru Guðrúnar Jóhönnudóttur um að of mikill tími sjúklinga og aðstandanda fari í að leita upplýsinga og að fara á milli stofnana. Lára Guðrún var í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins þar sem hún ræddi um þjónustu til krabbameinsveikra. Ræddi hún um að sjúklingar beri háan og dulinn kostnað og þurfi að ganga á milli stofnana og glíma við skrifræðið.

Í innleggi á Facebook síðu sinni segir Óttar að heilbrigðiskerfið sé í eðli sínu flókið og margslungið. „Við þurfum að nýta okkur reynslu og innsæi Láru og annara til að einfalda og létta sjúklingum og aðstandendum lífið,” skrifar hann.

Of mikill tími fari í að leita að upplýsingum

Tekur hann undir það að of mikill tími sjúklinga og aðstandenda fari í að leita að upplýsingum og að fara á milli stofnana. Segir hann að ein af megináherslum ríkisstjórnarinnar sé nú að bæta samstarf þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og að efla þverfaglega teymisvinnu til að gera þjónustuna markvissari og árangursríkari.

„Hugmyndir Láru um faglega leiðsögn til að rata í kerfinu eru mjög góðar og ríma við áherslur mínar um að bæta upplýsingagjöf, fræðslu og leiðsögn innan kerfisins,“ skrifar Óttarr.

Sárt að vita hve krabbameinsveikir hafa þurft að greiða háar upphæðir vegna meðferðar

Telur hann það að það sé komið þak á heildargreiðslur einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu sé mikil breyting til batnaðar.

Það er sárt að vita hve krabbameinsveikir hafa þurft að greiða háar upphæðir vegna meðferðar undanfarin ár,” skrifar Óttarr en hann segist vilja lækka enn frekar þátt einstaklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. 

Ábendingar Láru í takt við tillögur að íslenskri krabbameinsáætlun

Óttar tekur einnig undir með Láru um að nauðsynlegt sé “að tryggja að sjúklingar fái tóm og tíma til að safna orku og byggja sig aftur upp í kjölfar veikinda.” 

Ábendingar Láru eru í takt við tillögur að íslenskri krabbameinsáætlun sem nú liggja fyrir með áherslu á aukinn stuðning og ráðgjöf til einstaklinga með krabbamein og aðstandenda. Sérstaklega þurfum við að taka okkur á og tryggja að þjónustan sé samfelld og samræmd. Framundan er starf nýrrar nefndar sem mun forgangsraða þessum nýju tillögum og ekki spurning að hugmyndir og ábendingar Láru eiga erindi inn í þá vinnu,” segir Óttarr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×