Innlent

Vill gítarinn sinn aftur: „Væri voða næs ef einhver myndi koma með hann aftur til mín“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Eyfi tók þátt í Eurovision árið 1991 ásamt Stefáni Hilmarssyni þar sem þeir fluttu lagið Draumur um Nínu eins og frægt er orðið.
Eyfi tók þátt í Eurovision árið 1991 ásamt Stefáni Hilmarssyni þar sem þeir fluttu lagið Draumur um Nínu eins og frægt er orðið.
„Maður er ekkert að æsa sig yfir þessu, þetta er náttúrulega dauður hlutur en manni þykir vænt um þetta. Þetta er svona atvinnutækið manns og það væri voða næs ef einhver myndi koma með hann aftur til mín, það yrði ekki gert neitt veður út af því,“ segir tónlistarmaðurinn Eyjólfur Kristjánsson, betur þekktur sem Eyfi, í samtali við Vísi.  

Eyfi auglýsir á Facebooksíðu sinni eftir Takamine kassagítar sem hvarf fyrir nokkrum dögum úr bíl hans. Ekki er um venjulegan kassagítar að ræða því margir slagarar hafa verið leiknir á þetta hljóðfæri, þar með talið Draumur um Nínu sem allir Íslendingar elska og þekkja.  

Hér má sjá Eyfa leika á gítarinn umrædda.Eyfi
Eyfi segir engu öðru hafi þó verið stolið og til að mynda hafi ekki verið snert við peningum sem geymdir voru í bílnum, né við magnara og golfsetti.

„Það var bara farið inn í bílinn minn og þessi gítar tekinn. Það hlýtur að hafa verið í einhverju fylleríi eða einhverju bríaríi því það var svo margt annað í bílnum sem var hægt að stela en var ekki tekið,“ segir Eyfi í samtali við Vísi.

Eyfi segist hafa átt gítarinn í hátt í 14 ár og hann sé hans helsta atvinnutæki. Hann eigi þó vissulega fleiri gítara en hann vilji ólmur fá þennan til baka.

Nú þegar hafa yfir þrjú hundruð manns deilt færslu Eyfa en aðeins er rúmur klukkutími síðan hann auglýsti gítarinn. Nú er bara að hafa opin augun og vonast til þess að ómur strengjanna leiði gítarinn aftur til eiganda síns.

Færslu Eyfa má lesa hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×