Innlent

Ætti að forðast að taka kynferðisbrotin út fyrir sviga

Kolbeinn Tumi Daðason og Þórhildur Þorkelsdóttir skrifa
Talið er að sextán þúsund manns hafi verið í brekkunni á Þjóðhátíð þegar mest var.
Talið er að sextán þúsund manns hafi verið í brekkunni á Þjóðhátíð þegar mest var. Vísir/Óskar P. Friðriksson
Lögreglan í Vestmannaeyjum setti í gær stöðuuppfærslu inn á Facebook síðu sína þar sem talin voru upp verkefni helgarinnar. Þar kom fram að þrjú kynferðisbrot væru til rannsóknar eftir helgina, enn sem komið er.

Meintir gerendur voru í öllum tilfellum handteknir eftir að tilkynnt var um málin. Tvö mál komu upp á tjaldsvæðinu í Herjólfsdal og eitt í heimahúsi, en það er eina málið sem hefur verið kært til lögreglu.

Athygli vekur að lögreglan í Vestmannaeyjum tekur sérstaklega fram í öllum tilvikum að þolendur og gerendur þekkist. Á það ekki við um önnur ofbeldismál sem komu upp á hátíðinni.

„Það sem mér fannst gott var að það var regluleg umfjöllun en ekki beðið þar til eftir verslunarmannahelgi eins og hefur verið áður. Þarna voru auðvitað kynferðisbrotamálin tekin út fyrir sviga eins og verið hefur undanfarin ár. Það er eiginlega það sem við viljum forðast,“ segir Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur.

Fréttastofa spurði lögregluna í Vestmannaeyjum hvers vegna það væri sérstaklega tekið fram að þolandi og meintur gerandi þekktust í kynferðisbrotamálum en ekki í öðrum ofbeldismálum.

Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn svaraði því til að málavextir væru skýrari með því að taka þessar upplýsingar fram.

„Mér finnst þetta óheppilegar upplýsingar. Ef vaninn er ekki sá að taka fram hvort fólk þekkist í líkamsárásum, þá ætti ekki heldur að gera það varðandi kynferðisbrot.“

Þóra bendir á að í flestum ofbeldismálum þekkist þeir sem eigi í hlut.

„Langoftast er það þannig, að það eru einhver tengsl á milli geranda og þolanda. Þannig er það almennt í ofbeldismálum, hvort sem um er að ræða kynferðisbrot eða líkamsárásir og annað slíkt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×