Innlent

Tómas hélt að þetta yrði hans síðasta | Myndband

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tómas Þórhallur var handviss um að hann myndi drukkna.
Tómas Þórhallur var handviss um að hann myndi drukkna. Skjáskot
Svaðilför áhættuleikarans Tómasar Þórhalls Guðmundssonar niður Wenatchee-ána í Washingtonfylki í Bandaríkjunum hefur ratað í heimsfréttirnar - og það ekki að ástæðulausu.

Myndband sem Tómas fangaði á GoPro-myndavél sem hann hafði á hausnum, og sjá má hér að neðan, sýnir hvernig hann þurfti að berjast fyrir hverjum andardrætti eftir að hafa velt bátnum sínum í flúðum árinnar. Í rúmar þrjár mínútur má heyra hvernig hinn skelkaði Tómas fer undir hverja ölduna á fætur annarri og gerir hvað hann getur til að halda sér á floti.

Blessunarlega, segir Tómas í samtali við Daily Mail, hafði leiðbeinandi hans bent honum á að leggjast á bakið með lappirnar fram færi svo að hann myndi detta í ána.

Tómas lýsir því að ekki einungis hafi hann fallið útbyrðis heldur hafi hann einnig rekist á heljarinnar grjóthnullung er hann flaut í ánni og við það hafi hann misst andann. Að lokum hafi félagar hans þó náð að bjarga honum upp í annan bát.

Tómas segist hafa verið úrvinda eftir átökin, sem áttu sér stað þann 21. júní síðastliðinn, en að hann hafi reynt að vera rólegur og fylgja leiðbeiningunum.

„Ég varð fyrir hverri öldunni á fætur annarri og ég náði varla andanum - þá hélt ég að ég myndi drukkna,“ segir Tómas.

„Þetta er ógnvekjandi tilfinning sem ég hef ekki upplifað mörgum sinnum og ég vona að ég þurfi aldrei að gera það aftur,“ segir Tómas og bætir við að vera þakklátur fyrir að hafa fangað þetta allt á myndband - sem sjá má hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×