Innlent

Þetta er eina útgerðin sem rær úr Breiðafjarðareyjum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Grásleppu landað í Flatey úr Rán. Aflinn fer beint um borð í Baldur til vinnslu í Stykkishólmi.
Grásleppu landað í Flatey úr Rán. Aflinn fer beint um borð í Baldur til vinnslu í Stykkishólmi. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Aðeins einn bátur rær nú til fiskveiða úr Breiðafjarðareyjum, en hann er gerður út frá Flatey á grásleppu. Frétt Stöðvar 2 af útgerðinni í Flatey má sjá hér. 

Breiðafjörður var kallaður matarkista Íslands og þegar enn var búið í tugum eyja réru þaðan sennilega á annaðhundrað báta til fiskveiða. Úr Oddbjarnarskeri einu réru á vertíð í kringum þrjátíu bátar.

Í árbók Ferðafélags Íslands frá 1989 um Breiðafjarðareyjar kemur fram að um og yfir fimmtíu eyjar hafi verið byggðar fyrr á öldum, þar af átta í Barðastrandarsýslu en 40-50 í Snæfells- og Dalasýslum.

Grásleppan komin ísuð á bryggjuna í Flatey og á leið um borð í ferjuna BaldurStöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Heilsársbúseta er núna aðeins í Flatey og þar er jafnframt eina útgerðin sem eftir er í eyjunum. Þar gera þeir Hafþór Hafsteinsson og Friðrik Einarsson út á grásleppu. Þeir eru saman með tvo báta, Rán og Djúpey, en róa þó aðeins á öðrum þeirra í senn. Miðin eru ekki langt undan en grásleppunetin leggja þeir í kringum Flatey. 

Áður fyrr voru aðeins hrognin hirt en fiskinum hent fyrir um borð en fyrir sjö árum var reglum breytt og nú þarf að skila allri grásleppunni í land. Flateyingar nýta sér ferjuna Baldur til að koma grásleppunni ísaðri til hrognatöku og vinnslu í Stykkishólmi.

Hafþór Hafsteinsson, grásleppusjómaður í Flatey.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Hafþór Hafsteinsson, grásleppusjómaður í Flatey, segir að vertíðin hafi verið ágæt í sumar, sérstaklega núna seinnipartinn, og tíðarfar gott. Hann vill þó ekki meina að bestu grásleppumiðin séu við Breiðafjörð heldur fyrir norðan, við Húnaflóa. 

Og þeir Hafþór og Friðrik eru með háseta í áhöfn, Elísu, dóttur Hafþórs. Hún segist koma með af og til. Lagt sé snemma af stað, klukkan sex á morgnana. Elísa segir það ekkert frekar karlastarf að vera grásleppusjómaður enda sé hún alin upp við þetta.

Elísa Hafþórsdóttir, grásleppusjómaður í Flatey. Ferjan Baldur við bryggjuna fyrir aftan.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Grásleppuvertíðin á Breiðafirði hófst þann 20. maí og henni lýkur þann 14. ágúst. 

Hér fyrir neðan má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Íbúar Flateyjar vilja undir Stykkishólm

Allir íbúar Flateyjar á Breiðafirði hafa óskað eftir því að stjórnsýsla eyjunnar verði færð frá Vestfjörðum yfir á Snæfellsnes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×