Innlent

Einn handtekinn grunaður um að hafa stungið mann með eggvopni

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom víða við í gærkvöldi og nótt. Alls voru þrettán manns teknir í gærkvöldi og í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom víða við í gærkvöldi og nótt. Alls voru þrettán manns teknir í gærkvöldi og í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum. Vísir/Eyþór
Það var í nógu að snúast hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Langmesta ónæðið virðist hafa verið í umdæmi Lögreglunnar á Hverfisgötu sem sér um Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ og Seltjarnarnes. Talsvert var um akstur undir áhrifum víða í borginni.

Alls voru átta teknir eftir miðnætti grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Farþegi í einum bílnum var kærður fyrir vörslu fíkniefna. Um klukkan hálf eitt í nótt fékk lögreglan svo tilkynningu um að maður hefði verið stunginn með eggvopni í Austurstræti. Sá var fluttur á Slysadeild til aðhlynningar en árásarmaðurinn var vistaður í fangageymslum lögreglu. Málið er í rannsókn.

Þá var lögreglan einnig kölluð á vettvang um kvöldmatarleitið í gær þegar maður reyndi að endurheimta stolna vespu en meintur þjófur reyndir að stinga hann með áhaldi. Hann var handtekinn skömmu síðar og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan í Mosfellsbæ hafði afskipti af konu sem var handtekinn eftir umferðaróhapp um sjö leitið í gærkvöldi. Hún er grunuð um nytjastuld bifreiðar, akstur undir áhrifum og akstur án réttinda. Sömuleiðis var hún grunuð um vörslu fíkniefna. Lögreglan hafði einnig afskipti af fjórum ungum mönnum sem héldu vöku fyrir nágrönnum þegar þeir voru með flugeldasýningu um klukkan tvö í nótt. Þá hafði hún einnig afskipti af manni í Mosfellsbæ sem braut rúðu í fyrirtæki/verslun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×