Innlent

Þriggja ára fangelsi fyrir innflutning á tveimur kílóum af kókaíni

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn játaði brot sitt skýlaust.
Maðurinn játaði brot sitt skýlaust. Vísir/Hari
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt hollenskan karlmann, Heynrich Adolf van Glanen Weijgel, í þriggja ára fangelsi fyrir innflutningi á tæpum tveimur kílóum af kókaíni í maímánuði síðastliðinn.

Maðurinn er fæddur árið 1969. Hann flutti efnin til landsins með flugi frá belgísku höfuðborginni Brussel til Keflavíkur og hafði hann efnin falin í ferðatösku sinni. Í ákæru segir að styrkleiki efnanna hafi verið að meðaltali 86,5 prósent og hafi hann ætlað selja efnin í ágóðaskyni hér á landi.

Í matsgerð frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands kemur fram að neyslustyrkleiki kókaíns í Danmörku hafi að meðaltali verið að 37 prósent árið 2015. Því sé ljóst að hægt hefði verið að blanda efnin og selja samtals rúmlega 4,6 kíló af kókaíni af þeim styrkleika fyrir það magn sem maðurinn flutti til landsins.

Hann játaði brot sitt skýlaust. Í dómnum segir að ekki sé vitað til að ákærði hafi áður verið dæmdur til refsingar sem gæti haft áhrif við ákvörðun refsingar nú.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða sakarkostnað, samtals 1.587.894 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×