Innlent

Þetta eru vinsælustu þynnkubanar Íslendinga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einhverjir munu eflaust þurfa að grípa til þynnkubana um verslunarmannahelgina sem er framundan.
Einhverjir munu eflaust þurfa að grípa til þynnkubana um verslunarmannahelgina sem er framundan. Vísir/Getty
Þunnir Íslendingar drekka langflestir vatn til að losna við timburmenn, að því er fram kemur i niðurstöðum nýrrar könnunar MMR. Könnunin var sérstaklega gerð fyrir verslunarmannahelgina, sem nú er framundan, en ekki þykir ólíklegt að landsmenn glími einhverjir við þynnku á næstu dögum.

Eins og áður sagði er vatnsdrykkja vinsælasta lausnin við þynnku en um 40 prósent sögðust grípa til vatnsins eftir kvöld á galeiðunni.

Næstflestir, 24 prósent, tóku verkjalyf á borð við paracetamóls í glímu sinni við þynnku og 21 prósent gæddu sér á feitum mat. Enn aðrir sögðust drekka íþróttadrykki, eða 14 prósent aðspurðra, og 9 prósent fengu sér kaffi.

Einungis 3 prósent gerðust þó svo djarfir að drekka meira áfengi, eða að fá sér svokallaðan „afréttara“, í von um að hrekja timburmennina á brott. 13 prósent sögðust hreinlega ekki gera neitt til að sporna við þynnku.

Flestir drekka vatn við þynnku en fæstir fá sér afréttara.MMR
Þá voru svarendur á aldrinum 18-29 ára líklegri til að fá sér vatn daginn eftir skemmtanahald en fólk eldra en 68 ára. Karlar voru líklegri en konur til að gera ekkert við þynnkunni.

Stuðningsmenn Vinstri grænna voru líklegastir stuðningsmanna stjórnmálaflokkanna til að segjast aldrei drekka eða verða aldrei þunnir, eða 40 prósent. Stuðningsmenn Viðreisnar voru hins vegar ólíklegastir til þess.

Úrtak könnunarinnar var einstaklingar 18 ára og eldri. 909 einstaklingar svöruðu könnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×