Innlent

Bifreið brann við Heiðmerkurveg

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom víða við í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom víða við í gærkvöldi og nótt. Vísir/Eyþór
Laust eftir eitt í nótt var tilkynnt um eld í bifreið á Heiðmerkurvegi nærri tjaldstæði. Bifreiðin var brunnin og ónýt þegar lögregla kom á staðinn. Eldsupptök eru enn ókunn en bifreiðin var flutt af vettvangi, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um klukkan fimm síðdegis í gær var bifreið stöðvuð í Stúfholti í Reykjavík. Ökumaður bifreiðarinnar reyndist hafa verið ítrekað stöðvaður réttindalaus við akstur. Í gær var engin breyting þar á en maðurinn var ökuréttindalaus. Lögregla lagði því hald á lykla bifreiðarinnar.

Kölluð út tvisvar vegna sama mannsins

Á sjötta tímanum í gær hafði lögregla afskipti af manni í Stigahlíð vegna vörlsu fíkniefna. Málið var afgreitt á vettvangi. Laust fyrir tíu í gærkvöldi, um fimm klukkustundum síðar, var sami maður handtekinn ofurölvi í Stigahlíðinni. Hann var þar til vandræða sökum ástands og var vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Þá var ofurölvi maður handtekinn í húsi við Tjarnargötu þar sem starfrækt er félagsleg þjónusta. Hann var einnig vistaður í fangageymslu lögreglu.

Stálu vespu í Breiðholti og maður handtekinn á nærbuxunum

Laust eftir miðnætti í gær voru tveir menn handteknir við Engihjalla. Mennirnir voru í annarlegu ástandi og grunaðir um nytjastuld á bifhjóli (vespu) og vörslu fíkniefna. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Þá var maður handtekinn í annarlegu ástandi við Seljabraut. Hann hafði valdið ónæði og stóð á nærbuxum einum klæða er lögregla kom að honum. Hann var einnig vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×