Innlent

Tók slasaðan lunda í varanlegt fóstur

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Lundinn Mundi, sem var í vor bjargað við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar, lifir nú góðu lífi í Mosfellsbæ hjá Ásrúnu Ester Magnúsdóttur sem tók hann í varanlegt  fóstur.

„Ég ákvað að taka hann heim og ætlaði nú að hlúa aðeins að honum en planið var alltaf að sleppa honum aftur. Svo kemur í ljós að hann sé væntanlega blindur, eða allavega sjái mjög illa. Ég hef rætt við marga fuglafræðinga og dýralækna og þeir eru allir sammála um það að sjónskertur fugl muni hafa fáa kosti í náttúrunni," segir Ásrún.

Úr varð að hún og kærasti hennar tóku Munda í varanlegt fóstur og það er ekki annað að sjá en að hann lifi góðu lífi. Búrið er sérsmíðað, hann er með einkasundlaug og fær loðnu í gogginn nokkrum sinnum á dag. 

„Vinum og vandamönnum fannst ekkert sérstaklega skrítið þegar þau fréttu að ég væri komin með enn eitt dýrið inn á heimilið. En þett er nú svona með sérstakari páfagaukum sem fólk sér,“ segir Ásrún kímin.

Hún stofnaði Facebooksíðu fyrir nokkrum mánuðum til að leyfa fólki að fylgjast með ævintýrum Munda. Hann á nú aðdáendur um allan heim. 

„Þetta er ótrúleg athygli. Ég held það séu um tvö þúsund manns sem eru aðdáendur á Facebooksíðunni hans. Þau eru að kommenta og senda mér skilaboð og allir að hylla mig. Þessir týpísku Bandaríkjamenn eru að biðja fyrir okkur og lofa okkur alveg í hástert,“ segir hún og hlær.

En í vetur, hvað þá?

„Þá eigum við þennan fína bílskúr sem við erum að hugsa um að rusla aðeins út úr og koma búrinu fyrir þar. Eina sem má kannski koma inn á er að mig vantar loðnu. Ef einhver veit hvar ég get fengið loðnu fyrir hann þá yrðum við afskaplega kát með það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×