Innlent

Matvælafyrirtæki kært fyrir að falsa niðurstöður á vatnssýni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vatnssýnin eru send á rannsóknarstofu til greiningar en niðurstöðurnar eru síðan skoðaðar af eftirlitsmönnum.
Vatnssýnin eru send á rannsóknarstofu til greiningar en niðurstöðurnar eru síðan skoðaðar af eftirlitsmönnum. Vísir/Getty
Matvælastofnun hefur kært matvælafyrirtæki til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en fyrirtækið er staðsett þar. Stofnunin hefur fyrir rökstuddan grun um að umrætt fyrirtæki hafi falsað niðurstöður greininga á vatnssýni og reynt með því að „blekkja Matvælastofnun sem opinberan eftirlitsaðila.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Matvælastofnun.

Í tilkynningunni segir að matvælafyrirtæki á borð við það sem hefur verið kært taki sjálf vatnssýni a.m.k. einu sinni á ári. Sýnin eru send á rannsóknarstofu til greiningar en niðurstöðurnar eru síðan skoðaðar af eftirlitsmönnum. Starfsmenn Matvælastofnunar heimsækja þessi fyrirtæki tvisvar til þrisvar á ári. Stofnunin segir vatnssýni umrædds fyrirtæki ekki hafa staðist kröfur reglugerðar.

„Málavextir eru þeir að í janúar 2017 fékk fyrirtækið afhentar niðurstöður greininga rannsóknarstofu á vatnssýni sem það hafði sjálft tekið til skoðunar á vatnsgæðum. Niðurstöðurnar sýndu að vatnssýnið stæðist ekki kröfur samkvæmt reglugerð með tilliti til örverutalningar,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Afhenti falsaðar niðurstöður

Eftirlitsmaður Matvælastofnunar mætti í fyrirtækið í byrjun júlí. Hann fékk þar afhentar niðurstöður frá viðurkenndri rannsóknarstofu en skjalið var á bréfsefni rannsóknarstofunnar og undirritað af starfsmanni hennar.

„Eftirlitsmaður Matvælastofnunar mætti í fyrirtækið 4. júlí síðastliðinn. og fór þá m.a. fram á að fá til skoðunar nýjustu niðurstöður greininga á vatnssýni. Forsvarsmaður fyrirtækisins sagðist ekki hafa þær handbærar, en sendi stofnuninni síðar sama dag skjal dagsett 12. júní 2017, með niðurstöðum greininga á vatnssýni frá viðurkenndri rannsóknastofu. Þar kom fram að vatnssýni sem fyrirtækið hefði afhent til greiningar uppfyllti kröfur reglugerðar um neysluvatn. Skjalið var á bréfsefni rannsóknastofunnar og undirritað af starfsmanni hennar.“

Matvælastofnun segir að skjalið hafi vakið grunsemdir hjá eftirlitsmanni stofnunarinnar. Við eftirgrannslan staðfesti rannsóknarstofan, auk forsvarsmanni fyrirtækisins sem kært er til lögreglu, að skjalið væri ekki gefið út af henni.

„Grunsemdir vöknuðu hjá eftirlitsmanni Matvælastofnunar um gildi skjalsins og hefur rannsóknastofan staðfest að það er ekki gefið út af henni. Forsvarsmaður fyrirtækisins hefur einnig játað að svo er ekki. Matvælastofnun álítur málið alvarlegt og ákvað að kæra það til lögreglu, þar sem hér er að mati stofnunarinnar um að ræða fullframið brot, en skjalafals er brot á almennum hegningarlögum.“

Annað sýni stóðst viðmið

Þá segir í tilkynningu Matvælastofnunar að ætla megi að vatnssýnið hafi mengast af sýnatökubúnaði. Annað sýni, sem stofnunin tók einhverju síðar, reyndist standast örverufræðileg viðmið. 

„Eftir viðræður við forráðamann fyrirtækisins má ætla að vatnssýni sem hann tók í byrjun ársins hafi mengast af sýnatökubúnaði, sem ekki var ætlaður til þeirra nota. Matvælastofnun hefur nú tekið vatnssýni hjá hlutaðeigandi fyrirtæki og reyndist það standast örverufræðileg viðmið um gæði neysluvatns. Stofnunin vill beina því til forráðamanna matvælafyrirtækja að bregðast strax við ef vatnssýni standast ekki kröfur og grípa þegar til viðeigandi ráðstafana til að tryggja öryggi og gæði matvæla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×