Innlent

Fá meðferð við afleiðingum kynferðisofbeldis en ekki ofbeldinu sjálfu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigrún Sigurðardóttir, doktor í hjúkrunarfræði, er einn stofnenda Gæfuspora, meðferðarúrræða fyrir þolendur ofbeldis.
Sigrún Sigurðardóttir, doktor í hjúkrunarfræði, er einn stofnenda Gæfuspora, meðferðarúrræða fyrir þolendur ofbeldis. Sigrún Sigurðardóttir/Gæfuspor
Doktor í hjúkrunarfræði segir nauðsynlegt að koma meðferð við kynferðisofbeldi inn í heilbrigðiskerfið. Ótækt sé að þolendur kynferðisofbeldis fái einungis meðferð við afleiðingum ofbeldisins, eins og fíknivanda, geðrænum kvillum og líkamlegum sjúkdómum, en ekki sé boðið upp á meðferð við ofbeldinu sjálfu. Þá sýna rannsóknir fram á nokkurn kynbundinn mun á afleiðingum kynferðislegs ofbeldis í æsku.



Sigrún Sigurðardóttir, doktor í hjúkrunarfræði og lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri.Sigrún Sigurðardóttir
Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, varði doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði þann 9. júní síðastliðinn. Í ritgerð sinni skoðaði Sigrún afleiðingar kynferðisofbeldis í æsku fyrir bæði karla og konur á aldrinum 25-50 ára. Þá rannsakaði hún svokölluð „heildræn meðferðarúrræði“ við ofbeldinu.

Vöntun á meðferð við ofbeldinu sjálfu í heilbrigðiskerfið

Niðurstöður ritgerðar sinnar segir Sigrún í grunninn vera þær að afleiðingar kynferðisofbeldis í æsku séu mjög alvarlegar, bæði fyrir líkama þolenda og sál. Hún segir bráða vöntun á úrræðum fyrir þolendur inn í heilbrigðiskerfið.

„Nú er til dæmis verið að tala mikið um krabbameinsmeðferðir og hvernig fólk þarf að borga þær sjálft. En ef þú verður fyrir ofbeldi þá færðu enga sjálfkrafa úrvinnslu í kerfinu. Krabbameinssjúklingar fá meðferð en það er engin meðferð, þannig lagað, fyrir þolendur kynferðisofbeldisins innan kerfisins. Ef þú ert alkóhólisti þá flýgurðu inn á Vog en ef þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku þá er enginn sem grípur þig í kerfinu,“ segir Sigrún.

Hún segir enn fremur meðferðina sem í boði er nær einungis einblína á afleiðingar ofbeldisins. Þannig sækir fólk meðferð við geðrænum vandamálum, fíkn o.s.frv., en meðferðir við ofbeldinu sjálfu vanti.  

„Þegar ég talaði til dæmis við karlmennina hafði enginn af þeim fengið meðferð. Þeir höfðu bara farið á Vog, af því að þeir áttu við áfengis- eða fíknivandamál að stríða, og þeir sem voru lengst leiddir enduðu jafnvel inni á geðdeild með þunglyndi.“

Konur veikjast af líkamlegum kvillum en karlar leiðast út í neyslu og afbrot

Sigrún segir nokkurn kynjamun hafa komið í ljós á afleiðingum kynferðisofbeldisins. Konur beini tilfinningum sínum inn á við en karlar út á við.

„Afleiðingarnar eru margar eins en meginmunurinn er að konum hættir meira til að beina tilfinningunum inn á við þannig að þær verða frekar líkamlega veikar, fá sjúkdóma. Það sést að áföll af þessu tagi, kynferðisofbeldi, geta greinilega leitt til flestra líkamlegra sjúkdóma. Þolendur eru að glíma við verki, vefjagift og jafnvel krabbamein,“ segir Sigrún.

Um 80 konur hafa sótt meðferð hjá Gæfusporum síðan árið 2011.
„Strákar segja síður frá og þeir virðast beina tilfinningum sínum meira út á við. Þeir fara til dæmis í fíkniefna- og áfengisneyslu, afbrot og þeir náttúrulega fyrirfara sér frekar. Og það er það sem hefur verið í svolitlum feluleik hjá okkur, það eru ungir drengir, það er talað um að einn af hverjum sex drengjum verði fyrir kynferðisofbeldi fyrir átján ára aldur.“

Karlarnir sem Sigrún ræddi við í einni af rannsóknum sínum glímdu til að mynda við námsörðugleika, einelti og áfengis- og fíkniefnaneyslu. Þeir áttu erfitt með að tengjast mökum og börnum, höfðu gengið í gegnum hjónaskilnaði og voru allir forsjárlausir feður.

Samblanda af sálfræðimeðferð, jóga og hugleiðslu reynst best

Sigrún er einn stofnenda Gæfuspora, meðferðarúrræðis fyrir þolendur ofbeldis. Í Gæfusporum er unnið með sálfræðimeðferð, hópmeðferð, líkamsvitund, jóga, listmeðferð, hreyfingu og matarræði svo fátt eitt sé nefnt. Meðferðin er þó aðeins í boði fyrir konur eins og er en Sigrún vonast til þess að einhvern tímann verði hægt að bjóða karlmönnum upp á sambærileg úrræði.

Meðferð á borð við þá sem boðið er upp á hjá Gæfusporum segir Sigrún hafa reynst þolendum kynferðisofbeldis í æsku best.

„Það er það sem hefur reynst best, þessi massíva meðferð. Gæfusporin eru tíu vikna prógram alla daga vikunnar. Við höfum verið með þetta í gangi hér í Starfsendurhæfingarstöð Norðurlands og líka í Mjóddinni í Reykjavík.“

Gæfuspor hafa aðstoðað um 80 konur síðan árið 2011. Sigrún segir starfsemina þó algjörlega háða styrkjum og því sé, eins og áður sagði, ótrúlega mikilvægt að innlima meðferð sem einblínir á ofbeldið sjálft inn í heilbrigðiskerfið.

„Það sem gengur best er einmitt að fara inn í meðferðina á þeim forsendum að þú hafir orðið fyrir kynferðisofbeldi en ekki á forsendum afleiðinganna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×