Innlent

Braust inn í bíl en eigandi náði þýfinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi.
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. vísir/eyþór
Á áttunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um mann vera að brjótast inn í bifreið við Hávallagötu í Reykjavík. Eigandi bifreiðarinnar kom að manninum og náði af honum tösku með ætluðu þýfi en þjófurinn náði að hlaupa í burtu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þjófurinn var handtekinn skömmu síðar og færður á lögreglustöð. Þar fundust á honum ætluð fíkniefni en af honum var þar að auki tekin skýrsla. Manninum var að því búnu sleppt úr haldi lögreglu.

Þá var maður handtekinn í Garðabæ um sjöleytið í gærkvöldi en hann var grunaður um að hafa valdið umferðaróhappi og að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann var fluttur í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Um klukkan ellefu í gærkvöldi var maður handtekinn við Laugardalshöll. Hann var ofurölvi og lét ófriðlega. Hann var vistaður í fangageymslu og þess beðið að ástand hans batni.

Þrír ökumenn til viðbótar voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Einn þeirra var sviptur ökuréttindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×