Erlent

Óttast óeirðir í kjölfar allsherjarkosninga í Kenía

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Uhuru Kenyatta á kosningafundi í Naíróbí í Kenía.
Uhuru Kenyatta á kosningafundi í Naíróbí í Kenía. vísir/epa
Kosningar fara fram í Kenía eftir slétta viku. Augu heimsbyggðarinnar beinast að landinu vegna þeirra en óttast er að átök brjótist út í kjölfar kosninganna. Slíkt gerðist síðast fyrir tíu árum en rúmlega þúsund manns týndu lífi í átökunum.

Í Kenía velja íbúar sér samtímis forseta, varaforseta og þing auk þess sem kosið er um ýmis embætti landsins. Forseti landsins, Uhuru Kenyatta, sækist eftir endurkjöri en hans helsti andstæðingur er Raila Odinga. Sitjandi forseti hefur sakað mótframbjóðanda sinn um að reyna að koma af stað vargöld í landinu en Odinga sakar forsetann um að ætla að hagræða úrslitunum. Odinga sakaði Kenyatta um að hafa átt við kosningakerfið í kosningunum árið 2013 en þeim ásökunum var hafnað af dómstólum landsins.

Naíróbí, höfuðborg landsins, er næststærsta viðskiptaborg Austur-Afríku á eftir Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu. Erlendir fjárfestar eiga mikilla hagsmuna að gæta í landinu en þeir hafa dælt peningum í banka, ferðaþjónustu og fjarskiptageira landsins. Þeir bíða nú milli vonar og ótta enda líklegt talið að óeirðir brjótist út.

Í gær bárust fregnir af því að yfirmaður í kosningastjórn landsins hefði fundist myrtur fyrir utan Naíróbí. Chris Msando hafði gegnt lykilhlutverki í að hanna rafrænt kosningakerfi sem verður notað í kosningunum til að koma í veg fyrir kosningasvindl.

Óeirðir brutust út í landinu í árslok 2007 eftir umdeildar kosningar. Bardagar stóðu yfir í tvo mánuði. Yfir þúsund létust og talið er að allt að hálf milljón hafi flúið heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×