Innlent

Hæpið að hægt sé að setja reglur um að konur hylji geirvörtur í sundi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Stenst að öllum líkindum hvorki jafnréttislög né stjórnarskrá að setja reglur um að konur hylji geirvörtur í sundi.
Stenst að öllum líkindum hvorki jafnréttislög né stjórnarskrá að setja reglur um að konur hylji geirvörtur í sundi. Vísir/Ernir
Ólíklegt getur talist að sveitarfélög geti sett sundlaugargestum skorður varðandi klæðaburð eftir kyni að mati félagsmálaráðherra.

Þetta kemur fram í svari Þorsteins Víglundssonar við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, sem spurði ráðherra margvíslegra spurninga um kynjamismunum.

Spurði Jón Þór sérstaklega um reglur sem skylda konur að hylja geirvörtur sínar í sundi. Fyrr á árinu var sundgesti vísað úr sundlauginni á Akranesi vegna þess að hún var berbrjósta.

Í svari ráðherra segir að miðað sé við að allir sundlaugargestir þurfi að klæðast viðurkenndum sundfatnaði. Um reglur um konur hylji geirvörtur í sundi segir í svari ráðherra:

„Ólíklegt verður að teljast að lagalegur grundvöllur sé fyrir því að sveitarfélög setji sundlaugargestum skorður varðandi klæðaburð eftir kyni. Ekki verður séð að slíkar reglur væri unnt að réttlæta á málefnalegan hátt“.

Leiða megi líkur að því að slíkar reglur feli í sér mismunun á grundvelli kyns samanber jafnréttislög og væru í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×