Innlent

Undirrituðu samninga um íþróttamannvirki í Úlfarsárdal eftir margra ára deilur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dagur og Sigurður Ingi við undirritunina í dag.
Dagur og Sigurður Ingi við undirritunina í dag. vísir/stefán
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Sigurður Ingi Tómasson, formaður íþróttafélagsins Fram, undirrituðu í dag samning um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal sem þjóna munu íbúum Grafarholts og Úlfarsársdals og verða samtengd sundlaug, bókasafni og menningarmiðstöð hverfisins.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg er markmiðið með samningunum „að fullnægja þeim kröfum er íbúar Grafarholts og Úlfarsárdals gera til öflugs íþrótta- og æskulýðsstarfs í hverfinu til framtíðar. Fram stefnir að því að verða fyrirmyndar og alhliða íþróttafélag í hverfinu og skuldbindur félagið sig til þess að annast íþrótta- og æskulýðsstarf fyrir félagsmenn sína, íbúa í  Grafarholti og Úlfarsárdal og á starfssvæði Fram og þjónusta skóla og aðra aðila verði eftir því leitað.“

Búið er að byggja gervigrasvöll og grasæfingasvæði í Úlfarsárdal auk þess sem komið hefur verið fyrir bráðabirgðabúningaaðstöðu og aðstöðu vegna æfinga-og heimaleikja á gervigrassvæði. Þá hefur Fram aðgang að íþróttahúsum Sæmundarskóla og Ingunnarskóla.

Samningurinn nú kveður meðal annars á um að byggt verði fjölnota íþróttamannvirki fyrir Fram sem og aðalleikvangur fyrir félagið þar sem verður gervigras með upphitun og flóðlýsingu ásamt vökvunarkerfi.

Ferli sem miðaði að því að Fram myndi flytja höfuðstöðvar sínar í Úlfarsárdal hófst árið 2004 en samningar tóku langan tíma vegna en deilna milli félagsins og Reykjavíkurborgar um íbúafjölda í hverfinu. Í tilkynningu frá Fram í júlí síðastliðnum sagði meðal annars:

„Deilur milli Fram og Reykjavíkurborgar síðustu ár snérust að mestu um að hverfið, sem upphaflega átti að vera 25.000 manna hverfi, var skorið niður í um 9.500 manna hverfi og aðstaða félagsins var takmörkuð að verulegu leyti frá fyrstu samningum. Viðræður um lausn hafa staðið yfir um árabil en nú hafa samningsaðilar komist að niðurstöðu.“

Þá kom jafnframt fram að viðlíka uppbygging og áætluð er í Úlfarsárdal yrði aldrei möguleg í Safamýri þar sem Fram hefur haft aðstöðu um árabil. Uppbyggingu í Úlfarsárdal á að vera lokið árið 2021.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×