Innlent

Hótanir og hatursorðræða á netinu: Körlum frekar hótað en konur verða meira fyrir kynferðislegri áreitni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi aðstoðarsaksóknari hjá ríkissaksóknara, hélt erindi á Norræna lögfræðiþinginu í liðnum mánuði um hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs á netinu og um þá staðreynd að konur og karlar verða fyrir ólíkum brotum á netinu.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi aðstoðarsaksóknari hjá ríkissaksóknara, hélt erindi á Norræna lögfræðiþinginu í liðnum mánuði um hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs á netinu og um þá staðreynd að konur og karlar verða fyrir ólíkum brotum á netinu. Vísir/ernir
Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem gerð var á Norðurlöndunum á hótunum og hatursorðræðu á internetinu sýna meðal annars að konur sem taka þátt í opinberri umræðu verða frekar fyrir slíkum brotum en karlar.

Þá eru þau brot sem að konur verða fyrir á netinu oftar af kynferðislegum toga, ummæli sem snúa frekar að persónu þeirra og kynferði frekar en stöðu eða starfi. Karlar verða hins vegar frekar fyrir hótunum og ærumeiðingum sem beinast að því hvernig þeir standa faglega.

Norðurlöndin bæði leiðandi á heimsvísu í netnotkun og jafnrétti kynjanna

Markmið rannsóknarinnar, sem gerð var á vegum Norrænu upplýsingamiðstöðvarinnar um kynjajafnrétti fyrir Norræna ráðherraráðið, var að kortleggja norræna löggjöf varðandi hótanir og hatursorðræðuá netinu með sérstakri áherslu á það hvort munur væri á þeim brotum sem kynin verða fyrir.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi aðstoðarsaksóknari hjá ríkissaksóknara, hélt erindi á Norræna lögfræðiþinginu í liðnum mánuði um hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs á netinu og um þá staðreynd að konur og karlar verða fyrir ólíkum brotum á netinu.

Hún segir Norðurlöndin vera bæði leiðandi á heimsvísu hvað varðar notkun á internetinu, það er hversu vel tengd við erum, og sömuleiðis um jafnrétti kynjanna. Í því samhengi sé spurningin um kynjajafnrétti á netinu áhugaverð.

Munur er á þeim brotum sem konur og karlar verða fyrir á netinu.vísir/getty
„Stundum svo augljóslega verið að brjóta gróflega gegn persónu brotaþolans“

„Eitt af umræðuefnunum á þinginu var hatursorðræða og ærumeiðingar á netinu þar sem verið var að ræða þetta klassíska álitaefni um hvar mörk tjáningarfrelsis liggja og svo það hvernig við verndum friðhelgi einkalífsins. Minn fókus var að í sakamálarannsóknum hjá lögreglu varðandi brot á netinu þá eru það kannski ekki alltaf þessi mörk sem eru stóra vandamálið, það er stundum svo augljóslega verið að brjóta gróflega gegn persónu brotaþolans að það fer langt út fyrir mörk tjáningarfrelsis,“ segir Þorbjörg.

Hún bendir á að það séu aðrir þættir sem gera rannsóknir á brotu á internetinu flóknar, menn geta til dæmis tjáð sig undir nafnleynd og ummæli eða efni sem birtist á netinu dreifist mun hraðar og til mun fleiri einstaklinga en til dæmis það sem birtist í prentmiðlum.

„Þannig að skaðinn er margfalt meiri þegar menn verða fyrir brotum á netinu og það snýr auðvitað líka að því efni sem einu sinni fer á netið það hverfur ekki. Netið virðist líka hafa haft áhrif á bæði form og innihald í samskiptum fólks. Til að mynda deilum við miklu úr einkalífinu á samfélagsmiðlum þannig að mörkin á milli þess sem er prívat og opinbert eru orðin svo óljós. Það hefur siðan verið skoðað hvað það er sem veldur því að við erum svona miklir dónar á netinu og það hefur verið tengt við þá staðreynd að það er auðveldara að skrifa eitthvað á netið en að segja eitthvað augliti til auglits, það er ákveðin fjarlægð í þessum samskiptum á sama tíma og útbreiðsla þessa sama efnis getur orðið gríðarleg.“

Konur njóti lakari refsiverndar en karlar

„Í þessari rannsókn kemur fram að karlar verða meira fyrir því sem flokka má sem klassísk hegningarlagabrot, það er hótanir um líkamsmeiðingar og ofbeldi og svo ærumeiðingum. Konur verða frekar fyrir kynferðislegri áreitni og ummælum sem snúa að kynferði þeirra og persónu þeirra,“ segir Þorbjörg.

Konur verði einnig frekar fyrir nýrri tegundum brota og njóti þar af leiðandi lakari refsiverndar en karlar.

Karlar verða frekar fyrir hótunum og ærumeiðingum á netinu en konur verða meira fyrir kynferðislegri áreitni.vísir/getty
„Það stafar af því að þær verða frekar fyrirbrotum sem löggjafinn hafði einfaldlega ekki í huga þegar lögin voru sett, nýjum brotum sem hafa orðið veruleiki í kjölfar tækniþróunar, svo sem stafrænt kynferðisofbeldi sem eru alvarleg brot gegn friðhelgi einkalífs,“ segir Þorbjörg.

Konur sem taka þátt í opinberri umræðu útsettari fyrir brotum á netinu

Miðað við rannsóknir sem liggja fyrir á Norðurlöndunum eru síðan konur sem taka þátt í opinberri umræðu, til að mynda sem álitsgjafar, fræðimenn og stjórnmálamenn, útsettari fyrir brotum á internetinu heldur en karlar.

„Það er áhugavert, hvort svigrúm kvenna sé minna í umræðunni og að ummælin sem konur verða fyrir byggist svo mikið á kynferði.“

Í þessu samhengi liggur beinast við að spyrja Þorbjörgu hvort að eitthvað hafi verið rætt um það á þinginu að konur fari síður í viðtöl í fjölmiðlum vegna þessa en tölfræðin sýnir að mun fleiri karlar eru viðmælendur fjölmiðla heldur en konur.

„Þetta var ekki rætt neitt sérstaklega, nei, en þessu var þó velt upp aðeins í samhengi við hvernig við verjum tjáningarfrelsið á sama tíma og við við viljum verja friðhelgi einkalífs, tvö jafn mikilvæg réttindi. Einn vinkill í þeirri umræðu er sá að með því að vera ekki vakandi fyrir því hvaða afleiðingar orðræða á netinu getur haft þá verður afleiðingin af því kannski sú að ákveðnar raddir í samfélagsumræðunni heyrast ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×