Innlent

Tugir lögreglu- og sérsveitarmanna í Leifsstöð | Myndband

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjöldi lögreglumanna og bíla voru í og við flugstöðina í gærkvöldi.
Fjöldi lögreglumanna og bíla voru í og við flugstöðina í gærkvöldi. Skjáskot
Töluverður lögregluviðbúnaður var við flugstöð Leifs Eiríkssonar upp úr miðnætti þegar stuðningsmönnum úkraínska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sem lék við það íslenska í gærkvöld, var fylgt úr landi.

Eins og Vísir greindi frá í gær fylgdu níu hundruð stuðningsmenn úkraínska landsliðinu til Íslands og naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu meðal annars aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra við gæslu á Laugardalsvelli. Tveir úkraínskir stuðningsmenn voru handteknir fyrir utan völlinn og töluvert magn af grjóti, hnífur og flöskur gert upptækt.

Sjá einnig: Lögregla tók grjót og eggvopn af úkraínskum stuðningsmönnum

Það voru svo tugir sérsveitarmanna og lögreglumenn af Suðurnesjum sem fylgdu stuðningsmönnunum úr landi upp úr miðnætti og segja Víkurfréttir að þeir hafi „fyllt“ flugstöðina. Þeir hafi verið þar til að tryggja öryggi á meðan áhangendurnir innrituðu sig í flug. Engin áhætta hafi verið tekið og því „allt tiltækt lögreglulið“ kallað til gæslu við brottförina.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, sagði við Fréttablaðið í gærmorgun að lögreglan hefði haft upplýsingar frá lögreglu í Króatíu og Finnlandi um vandræði sem fylgdu úkraínsku stuðningsmönnunum.

Leik Íslands og Úkraínu lauk með tveimur mörkum íslenska liðsins gegn engu. Hér að neðan má sjá myndband sem Víkurfréttir tóku úr flugstöðinni í gærkvöldi.


Tengdar fréttir

Viðbúnaður aukinn vegna gestaliðsins

„Í stuttu máli sagt þá verðum við með viðbúnað svipaðan þeim sem var þegar Króatar komu í heimsókn,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×