Innlent

Borið á því að starfsmenn virði ekki uppsagnarfrest

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Láti starfsmenn af störfum innan uppsagnarfrests án þess að vinnuveitandi hafi samþykkt það geta þeir verið skaðabótaskyldir.
Láti starfsmenn af störfum innan uppsagnarfrests án þess að vinnuveitandi hafi samþykkt það geta þeir verið skaðabótaskyldir. Vísir/daníel
Undanfarið hefur töluvert borið á því að starfsmenn láti af störfum án þess að virða samningsbundinn uppsagnarfrest og án samþykkis vinnuveitanda. Þetta kemur fram í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þar segir að slíkt geti valdið vinnuveitendum miklu fjárhagslegu tjóni, sérstaklega í ástandi eins og nú þar sem er vart mælanlegt atvinnuleysi og erfitt að fá fólk til starfa með skömmum fyrirvara. Í kjarasamningum eru ákvæði um uppsagnarfrest sem bæði vinnuveitendum og starfsmönnum er skylt að vinna.

Starfsmönnum er því skylt að vinna út uppsagnarfrest og vinnuveitenda að greiða starfsmanni laun út uppsagnarfrest nema komist sé að samkomulagi um annað, til dæmis að starfsmaður fái að hætta störfum þegar nýr starfsmaður hefur verið ráðinn í hans stað.

Skaðabótaskyldur ef samkomulag er ekki til staðar

Starfsmaður sem neitar að virða uppsagnarfrest og gerist þannig sekur um ólögmætt brotthlaup úr starfi er skaðabótaskyldur gagnvart vinnuveitanda sínum. Þá getur bótakrafa vinnuveitanda numið fjárhæð sem svarar til launa á hálfum uppsagnarfresti. Veinnuveitendum er heimilt að draga bótakröfu sína frá launum starfsmanns, en rétt er þó að horfa til þess sem má telja sanngjarnt.

Á vef SA segir að vinnuveitandi þurfi að krefja starfsmann um bætur án ástæðulauss dráttar með sannanlegum hætti. Það gerir hann með því að senda starfsmanni bréf eða skeyti þar sem fram kemur hvaða afleiðingar brotthlaupið muni hafa í för með sér.

Skaðabótaskyldan er þó ekki til staðar í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur gerst sekur um alvarlegt brot gagnvart starfsmanni, til dæmis verulega vanefnd launa enda hafi starfsmaður kvartað formlega og gefið vinnuveitandanum nokkra daga frest til að bregðast við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×