Innlent

Borgarfjarðarbrú tekin við sem lengsta brú landsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Brúin yfir Borgarfjörð er nú orðin lengst íslenskra brúa.
Brúin yfir Borgarfjörð er nú orðin lengst íslenskra brúa.
Lengsta brú á Íslandi styttist um á fjórða hundrað metra þegar Skeiðarárbrú var tekin úr notkun í síðustu viku. Borgarfjarðarbrú hefur nú tekið við nafnbótinni lengsta brú landsins sem er í notkun.

Skeiðarárbrúin er 880 metrar að lengd. Eftir að Morsárbrú var tekin í notkun í síðustu viku er ekki lengur ekið yfir Skeiðarárbrúna.

Eftir þessi tímamót er brúin yfir Borgarfjörð nú lengst íslenskra brúa sem er í notkun, eins og vesturlenski fréttavefurinn Skessuhorn vakti athygli á í gær. Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er hún 520 metrar að lengd, fullum 360 metrum styttri en gamla Skeiðarárbrúin.

Borgarfjarðarbrúin var þegar stærsta brúin að flatarmáli þar sem hún er tvíbreið en Skeiðarárbrú er að mestu einbreið.

Ekki lengur þörf eftir að farvegurinn breyttist

Skeiðarárbrú var opnuð árið 1974 og markaði tímamót í samgöngusögu Íslands. Enginn vegur hafði verið þar fyrir og var hringveginum lokið með tilkomu brúarinnar.

Eftir að farvegur Skeiðarár færðist til vesturs var ekki lengur þörf fyrir brúna löngu. Í staðinn byggði Vegagerðin brú yfir Morsá sem er 68 metra löng. Hún var opnuð í síðustu viku.

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um framtíð Skeiðarárbrúar, að því er kom fram í tilkynningu Vegagerðarinnar frá því á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×