Innlent

Fær ekki fæðingarstyrk námsmanna því hún féll í einum áfanga

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Námskonan eignaðist barn undir lok síðasta árs.
Námskonan eignaðist barn undir lok síðasta árs. vísir/getty
Nemi í háskóla hér á landi fær ekki fæðingarstyrk námsmanna frá Fæðingarorlofssjóði. Ástæðan er sú að hún féll í áfanga.

Konan eignaðist barn síðari hluta árs 2016. Í nóvember sótti hún um fæðingarstyrk námsmanna en var synjað þar sem hún hafði ekki verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex af síðustu tólf mánuðum.

Konan komst að þungun sinni í miðri prófatíð á vorönn ársins 2016. Þá önn hafði hún verið í 26 einingum í skólanum en stóðst próf í sextán einingum. Sagði hún meðal annars að uppgötvunin hefði haft þau áhrif á hana að hún gat ekki einbeitt sér í því prófi sem hún féll í. Ekki var í boði fyrir hana að taka endurtektarpróf. Haustönnina á undan hafði hún staðist 30 einingar. Fullt nám telst vera 22-30 einingar.

Fæðingarorlofssjóður mat það svo að konan hefði ekki verið í fullu námi á vorönn 2016. Þá taldi sjóðurinn að tiltekin tímalengd náms hennar á haustmisseri 2015 og haustmisseri 2016 að fæðingardegi barnsins næði ekki sex mánuðum.

Konan lagði fram vottorð frá læknum sem í stóð að hún sýndi einkenni þunglyndi og kvíða.

Sérfræðilæknir Fæðingarorlofssjóðs var á annarri skoðun og því voru ekki talin skilyrði til að veita styrkinn af heilsufarsástæðum móðurinnar. Þessi niðurstaða var staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×