Enski boltinn

Sky: Af hverju hefur Gylfi farið svona rólega af stað?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi á enn eftir að skora eða leggja upp mark fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi á enn eftir að skora eða leggja upp mark fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson hefur farið rólega af stað með Everton frá því hann var keyptur á metverð frá Swansea City í sumar. Gylfi hefur leikið sjö leiki fyrir Everton og skorað eitt mark.

Í dag birtist löng grein á vefsíðu Sky Sports þar sem blaðamaðurinn Nick Wright fer yfir ástæðurnar fyrir rólegri byrjun Gylfa hjá Everton.

Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði stórkostlegt mark gegn Hajduk Split í sínum fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Everton en hefur síðan ekki komið að marki fyrir Bítlaborgarliðið.

Gylfi skoraði níu mörk og gaf 13 stoðsendingar með Swansea í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Gylfi lagði upp sex mörk fyrir Spánverjann stóra og stæðilega, Fernando Llorente.

Wright bendir á að enginn slíkur framherji sé í röðum Everton. Leikstíll liðsins sé því ansi frábrugðinn leikstíl Swansea á síðasta tímabili. Til marks um það gaf Swansea 22,7 fyrirgjafir að meðaltali í leik í fyrra, eða þriðju flestar í allri deildinni.

Á þessu tímabili er Everton aðeins með 16,7 fyrirgjafir í leik. Aðeins tvö lið í ensku úrvalsdeildinni (Arsenal og Watford) hafa gefið færri fyrirgjafir að meðaltali í leik.

Þá er Everton eitt fimm liða í ensku úrvalsdeildinni sem hafa ekki enn skorað mark eftir fast leikatriði. Hin eru Southampton, Crystal Palace, Huddersfield og Swansea.

Gylfi og Fernando Llorente náðu einkar vel saman hjá Swansea.vísir/getty
Everton seldi Romelu Lukaku til Manchester United í sumar og hefur ekki enn í fyllt skarðið sem Belginn skildi eftir sig. Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, reyndi að kaupa Olivier Giroud frá Arsenal og hafði áhuga á Chelsea-manninum Diego Costa.

Sandro Ramírez, sem var keyptur frá Malága, hefur lítið sýnt í framlínu Everton. Wright segir að hinn ungi og efnilegi Dominic Calvert-Lewin sé heppilegri kostur fyrir Gylfa, enda stærri og sterkari í loftinu en Sandro.

Wright bendir þó á að Gylfi og Calvert-Lewin eigi langt í land áður en þeir geta myndað eitrað tvíeyki. Gylfi átti t.a.m. aðeins þrjár sendingar á Calvert-Lewin í 2-1 sigrinum á Bournemouth um síðustu helgi. Þá átti Gylfi ekki eina sendingu á Oumar Niasse sem kom inn á sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks og skoraði bæði mörk Everton.

Grein Nicks Wright má lesa með því að smella hér.

Everton tekur á móti Burnley í Íslendingaslag á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

Fyrsti sigur Everton í september

Everton náði í fyrsta deildarsigur sinn síðan á opnunardegi úrvalsdeildarinnar í dag þegar liðið vann Bournemouth 2-1.

Kominn úr frystikistunni

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton unnu afar kærkominn sigur á Bournemouth um helgina. Hetja Everton var senegalski framherjinn Oumar Niasse sem virtist ekki eiga sér neina framtíð hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×