Enski boltinn

City þurfti vítakeppni til að sigra Wolves

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sergio Aguero tryggði City sigur í vítaspyrnukeppninni.
Sergio Aguero tryggði City sigur í vítaspyrnukeppninni. vísir/getty
Manchester United komst örugglega áfram í 8-liða úrslit enska deildarbikarsins í kvöld.

Liðið lagði Swansea af velli 0-2 með mörkum frá Marcus Rashford.

Hörður Björgvin Magnússon fékk loksins að spila fyrir Bristol City, en hann hefur verið úti í kuldanum í deildinni en fengið að spila í deildarbikarnum.

Bristol lagði úrvalsdeildarlið Crystal Palace að velli 4-1 og kom eitt marka Bristol upp úr löngu innkasti Harðar.

Stuðningsmenn Bristol City kunna að meta Hörð Björgvin og tóku þeir víkingaklappið í hvert skipti sem hann tók innkast.

Edward Nketiah var hetja Arsenal í kvöld, en framlengja þurfti leik Arsenal og Norwich eftir að Nketiah jafnaði í 1-1 á 85. mínútu.

Nketiah skoraði svo sigurmark Arsenal snemma í framlengingunni og tryggði Skyttunum sæti í 8-liða úrslitunum.

Aldrei þessu vant tókst Manchester City ekki að skora á 90 mínútum gegn 1. deildar liði Wolves. Þeim til lukku náðu Wolves ekki heldur að koma boltanum í netið og því þurfti að framlengja.

Það dugði hins vegar ekki að bæta hálftíma við leiktímann, grípa þurfti til vítaspyrnukeppni til að ráða fram úrslit.

Claudio Bravo varði aðra og þriðju spyrnu Wolves frá Alfred N'Diaye og Conor Cody eftir að Kevin de Bruyne og Yaya Toure skoruðu fyrir City. Leroy Sane skoraði svo úr þriðju spyrnunni og Sergio Aguero tryggði City sæti í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×