Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Slavia Prag 1-2 | Erfitt hjá Stjörnunni

Anton Ingi Leifsson á Samsung-vellinum skrifar
Stjarnan er í erfiðri stöðu fyrir síðari leikinn gegn Slavia Prag í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, en Stjarnan tapaði gegn tékkneska liðinu, 2-1, á Stjörnuvelli í fyrri leik liðanna í kvöld.

Eina mark leiksins skoraði Petra Divišová á 36. mínútu leiksins, en fram að því höfðu Stjörnustúlkur skapað sér ágætis færi sem þær hefðu getað gert betur í. Það er ekki spurt að því í Meistaradeildinni og þér er refsað.

Lára Kristín jafnaði metin með frábærum skalla eftir hornspyrnu, en gestirnir komust yfir af vítapunktinum mínútu síðar. Gestirnir frá Prag réðu ferðinni og unnu að lokum, 2-1, sigur.

Þær byrjuðu mun betur og einhver hrollur virtist í heimastúlkum, en hægt og rólega komust heimastúlkur betur inn í leikinn. Bæði Agla María og Ana Cate fengu fín færi til þess að koma Stjörnunni yfir, en áður hafði Slavia klúðrað ágætis færum og Stjarnan meðal annars bjargað á línu.

Petra Divišová kom svo Prag yfir eftir frábæra sendingu frá KLáru Cahyovnu, en hún átti góðan leik á miðjunni hjá Prag. Þannig stóðu leikar í hálfleik eða 1-0 og Slavia komið með útivallarmark.

Síðari hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Gestirnir voru meira með boltann og ógnuðu meira, en Stjarnan sótti úr hröðum upphlaupum, eins og leikskipulagið var væntanlega fyrir leikinn gegn sterku liði Slavia og fengu til þess fín færi.

Þó að lekur Stjörnunnar hafi verið betri í síðari hálfleik en í þeim fyrri þá voru það gestirnir frá Tékklandi sem fengu bestu færin. Þær sluppu meðal annars inn fyrir í síðari hálfleik, en Gemma varði meistaralega.

Lára Kristín jafnaði þó metin fyrir Stjörnuna á 70. mínútu þegar hún stangaði hornspyrnu Öglu Maríu í netið og allt leit betur út hjá Stjörnunni, en gestirir svöruðu fljótt. Bryndís braut klaufalega  af sér og Petra Divišová kom Slavia yfir af vítapunktinum.

Stjarnan reyndi að sækja jöfnunarmarkið, en allt kom fyrir ekki og gestirnir fara með 2-1 sigur til Prag fyrir síðari leik liðanna sem verður spilaður í Prag eftir viku.

Afhverju vann Slavia?

Slavia hefur einfaldlega úr hörkuliði að skipa. Liðið er með nánast tékkneska landsliðskonu í hverri einustu stöðu á vellinum, en liðið er virkilega vel spilandi og með mikinn hraða á vængjunum. Þær hefðu auðveldlega getað skorað fleiri en eitt mark í fyrri hálfleik, en Stjarnan hefði þó einnig getað skorað mörk úr hröðum upphlaupum sínum.

Þegar heildina á litið var þetta líklega sanngjarn sigur gestana, þó að Stjarnan hafi klárlega fengið tækfæri til þess að skora fleiri mörk. Barátta Stjörnunnar var þó til fyrirmyndar og mega þær vera stoltar af sinni frammistöðu í kvöld.

Hverjar stóðu upp úr?

Ana Cate var ódrepandi á miðjunni, en hún hefði þó líklega átt að skora. Miðverðirnir Anna María og Lorina White voru traustar í vörninni og Katrín Ásbjörnsdóttir er hættuleg þegar hún fær boltann í svæðinu milli varnar og miðju. Gemma Fay varði svo virkilega vel í síðari hálfleik, en einnig var markaskorarinn Lára Kristín öflug í vörn og sókn á miðjunni.

Í liði Slavia voru það sérstaklega kantmennirnir sem voru að valda varnarmönnum Stjörnunnar usla, en fyrirliðinn Blanka er einnig flink fótboltakona.

Hvað gekk illa?

Stjörnunni gekk ekkert sérstaklega að halda boltanum innan liðsins í fyrri hálfleik, en gestirnir pressuðu stíft. Einnig komst Harpa lítið í boltann og þegar hún fékk hann þá var hún virkilega langt frá marki andstæðinga. Þú vilt að Harpa fái boltann í kringum markið hjá andstæðingnum; þá er hún stórhættuleg. Hraðir kantmenn Slavia gerðu einnig varnarmönnum Stjörnunnar skráveifu og Stjarnan lenti í vandræðum með þá.

Hvað gerist næst?

Erfitt verkefni, eins og áður segir, bíður Stjörnunar í síðari leik liðanna en leikið verður í Prag eftir nákvæmlega viku. Það er þó hægt að segja að fótbolti er óútreiknanleg íþrótt og þótt að það verði við rammann reip að draga, þá er allt hægt í fótbolta. Útivallarmörkin hjá Slavia gefur þeim þó mikið.

Katrín: Erum Íslendingar og höndlum þetta vel

„Það gekk illa að nýta færin, sérstaklega í fyrri hálfleik,” sagði fyrirliði Stjörnunnar, Katrín Ásbjörnsdóttir, í samtali við Vísi í leikslok.

„Við fengum nokkur góð færi og hefðum getað nýtt þau betur, en það gekk ekki. Við sjáum að við eigum fullan séns í þetta lið,” en hvað þarf að gerast til þess að liðið fari áfram?

„Við þurfum að vera öruggar á boltanum og halda honum. Þá getur allt gerst í Prag þegar við förum þangað út,” en var stressið um of í fyrri hálfleik?

„Já, það er held ég rétt. Við vorum óöruggar og þorðum lítið að halda í hann. Svo gekk þetta betur í seinni hálfleik og þá förum við í að spila okkar bolta. Það sáu allir í dag að við getum unnið þetta lið og þurfum að eiga enn betur í næstu viku.”

„Við þurfum að hafa trú á þessu. Við vinnum í okkar hlutum í vikunni. Nú þekkjum við þær betur og ég býst við góðum leik í næstu viku.”

Leikið var í miklum kulda á Stjörnuvelli í kvöld, en Katrín kunni vel við sig í kuldanum.

„Mjög fínt. Við erum búnar að æfa í þessu síðustu vikur. Það er búið að kólna, en við erum Íslendingar og höndlum þetta vel,” sagði Katrín glettin.

Ólafur: Draumurinn lifir vonandi fram á síðustu sekúndu í Prag

„Öll töp eru svekkjandi, en þetta var hörkuleikur. Bæði lið fengu færi og kannski hefði jafntefli verið sanngjörn niðurstaða miðað við færin,” sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við Vísi í leikslok.

„Þær voru meira með boltann og það var planið. Við ætluðum að sækja hratt á þær og nýta veikleikana í vörn þeirra og við sáum það í leiknum. Við fengum fullt af sénsum og súrt að nýta það ekki.”

Nokkur munur var á fyrri hálfleik og seinni hjá Stjörnunni, en það virtist meiri yfirvegun í þeim síðari.

„Það vantaði aðeins yfirvegun í fyrri hálfleik og einnig að láta boltann ganga hraðar. Við vorum að taka margar snertingar og ná okkur. Þær vilja pressa og skilja veikleikana þannig til baka.”

„Við erum svekkt að hafa ekki nýtt það betur og nýtt færin sem við sköpuðum okkur í leiknum því við fengum nóg af færum,” en barátta Stjörnuliðsins var til fyrirmyndar:

„Ég er mjög ánægður með hvernig við spiluðum. Við erum að spila í nóvember eins og þú finnur, það er kalt,” sagði Ólafur og horfði á kuldalegan blaðamann:

„Það er langt síðan við spiluðum síðast, en það er engin afsökun. Við viljum vera á þessum stað og viljum taka þátt í þessari keppni. Draumurinn að komast í 16-liða úrslit rættist, en þá þurfa menn að setja sér ný markmið.”

„Við ætlum að gera það sem við getum til að fá hagstæð úrslit og koma okkur áfram, en við sjáum. Þetta er verðugt verkefni og erfitt. Þetta er gott lið, enda er þetta nánast bara landsliðið þeirra.”

„Það er þægilegt að geta haft það í einu liði, en þetta er frábær áskorun og gaman fyrir stelpurnar og okkur að upplifa þetta. Þær stóðu vel undir því í dag og við gáfum þeim hörkuleik. Svekkelsi að tapa honum,” en draumurinn um 8-liða úrslitin lifir:

„Hann lifir vonandi fram á síðustu sekúndu í Prag. Við gerum allt til þess og ætlum að njóta þess,” sagði Ólafur.

Agla María Albertsdóttir snýr á leikmann Slavia Prag í leiknum í kvöld.Vísir/Ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira