Erlent

Hringdi í Neyðarlínuna til að vara við Trölla

Samúel Karl Ólason skrifar
Trölli er alltaf að reyna að stela jólunum.
Trölli er alltaf að reyna að stela jólunum. Vísir/Getty
Hinn fimm ára gamli TyLon Pittman komst á snoðir um það um helgina að Trölli (Grinch) ætlaði að stela af honum jólunum. Þá hafði hann verið að horfa á hluta úr teiknimynd um Trölla. Vitandi það að hann væri of ungur til að takast á við Trölla brá Pittman á það ráð að hringja í Neyðarlínuna. Pittman reyndi nokkrum sinnum að hringja en snerist alltaf hugur og skellti á. Að endingu hringdi starfsmaður Neyðarlínunnar til baka.

„Ég vildi bara segja ykkur að passa ykkur á Trölla. Því Trölli ætlar að stela jólunum,“ sagði Pittman. Hann tilkynnti starfsmanni Neyðarlínunnar svo að hann ætlaði að verða lögregluþjónn þegar hann yrði stór.



Eftir stutt samtal bað starfsmaður Neyðarlínunnar um að fá að tala við einhvern fullorðinn og Pittman rétti föður sínum tólið.

„Þetta er Neyðarlínan,“ sagði hann við undrandi föður sinn sem vissi ekki af símtölum drengsins.

Hægt er að hlusta á símtalið hér að neðan en mögulega þurfa lesendur að hækka aðeins til að heyra það.

 

Lögreglukonan Lauren Deville heyrði af símtalinu og fór hún því í heimsókn til Pittman um kvöldið. Hún sagði drengnum að hún myndi ekki leyfa Trölla að stela jólunum. Hann gæti því notið jólanna án þess að vera hræddur.

Bróðir Pittman, sem er í flughernum, tók samskipti Pittman og Deville upp á myndband og birti á Facebook.



Þá er sagan þó ekki öll sögð því í gær var Pittman fengin til að hjálpa Deville við að handtaka Trölla, fyrir að ætla að stela jólunum.

„Ég spurði hvað hann myndi gera ef hann sæi Trölla,“ sagði Deville í samtali við Clarion Ledger. „Hann sagði að hann myndi hringja í okkur og við myndum koma og handtaka hann. Svo ég fór að leita og fann Trölla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×