Erlent

Sannur Finni áreitti þingkonu kynferðislega í jólaveislu þingsins

Atli Ísleifsson skrifar
Teuvo Hakkarainen, þingmaður Sannra Finna, hefur sjálfur viðurkennt að hafa verið ölvaður og kysst þingkonu Þjóðarbandalagsins í kaffistofu þingsins.
Teuvo Hakkarainen, þingmaður Sannra Finna, hefur sjálfur viðurkennt að hafa verið ölvaður og kysst þingkonu Þjóðarbandalagsins í kaffistofu þingsins. Wikipedia Commons
Maria Lohela, forseti finnska þingsins, segir það nú vera til skoðunar hvort að blása eigi af árlega jólaveislu þingmanna á finnska þinginu. Þetta sé gert eftir að fréttir bárust af því að þingmaður hafi beitt þingkonu kynferðislegri áreitni með því að kyssa hana á munninn með valdi í jólaveislu þessa árs sem fram fór fyrr í mánuðinum.

Teuvo Hakkarainen, þingmaður Sannra Finna, hefur sjálfur viðurkennt að hafa verið ölvaður og kysst Veera Ruoho, þingkonu Þjóðarbandalagsins, í kaffistofu þingsins. Finnskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Kari Tolvanen, þingmaður Þjóðarbandalagsins, hafi svo komið að þeim og stíað þeim í sundur.

Með dólgslæti

Eftir atvikið á Hakkarainen að hafa farið í herbergi þingflokks Blárrar framtíðar þar sem hann var með dólgslæti.

Jussi Halla-aho, formaður Sannra Finna, segir að hegðun Hakkarainen verði tekin til umræðu innan þingflokksins í vikunni. Verði þar ákveðið hvort hann verði áminntur eða jafnvel vísað úr þingflokknum.

Með áfengiseitrun

Einnig hafa borist fréttir af því að kalla hafi þurft til Päivi Räsänen, þingmann Kristilegra demókrata, sem er læknir að mennt, eftir að talið var að aðstoðarmaður þingflokks Sannra Finna hafi fengið áfengiseitrun í þessari sömu jólaveislu.

Lohela, forseti þingsins, hefur beðið þingflokkana um að senda sér ályktanir um hvort blása eigi þessar árlegu jólaveislur þingflokkanna af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×