Erlent

Vilja ekki að Franken segi af sér

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Al Franken.
Al Franken. vísir/getty
Að minnsta kosti fjórir öldungadeildarþingmenn Demókrata í Bandaríkjunum hafa hvatt Al Franken, fráfarandi öldungadeildarþingmann, til að draga afsögn sína til baka. Tvær vikur eru liðnar frá því að Franken tilkynnti um afsögn sína eftir að hann hafði gengist við ásökunum um kynferðislega áreitni. Frá þessu greindi Politico í gær.

Joe Manchin, samflokksmaður Frankens, hefur verið einna háværastur um málið. Í viðtali við Politico í gær sagði hann framkomu Demókrata í garð Frankens hneykslanlega. „Þetta er mesta hræsni sem ég hef séð nokkurn sýna annarri manneskju. Að hafa það í sér að sitja og hlusta á hann tilkynna um afsögnina og fara svo til hans og faðma hann. Mér verður illt af því að hugsa um þetta,“ sagði Manchin.

Sagði Manchin enn fremur að Franken sjálfur hefði viljað undirgangast rannsókn siðanefndar og taka svo ákvörðun byggða á niðurstöðunni. Við það ætti hann að standa, óháð þrýstingi frá öðrum Demókrötum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×