Erlent

Segja árásina ekki tengda hryðjuverkum

Samúel Karl Ólason skrifar
Nítján manns voru flutt á sjúkrahús.
Nítján manns voru flutt á sjúkrahús. Vísir/EPA
Yfirvöld í Ástralíu telja að maður sem ók viljandi á hóp fólks í Melbourne tengist ekki hryðjuverkastarfsemi. Ökumaðurinn, sem er 32 ára gamall og á rætur sínar að rekja til Afganistan, er sagður eiga við geðræn vandamál að stríða og eigi að baki sér langa sögu í fíkniefnaneyslu.

Samkvæmt frétt ABC í Ástralíu hafa nítján manns verið flutt á sjúkrahús. Nokkrir eru sagðir í alvarlegu ástandi. Meðal hinna særðu er fjögurra ára drengur sem var alvarlega slasaður en er nú sagður í stöðugu ástandi. Árásin átti sér stað upp úr klukkan 17 að staðartíma, eða klukkan 6 í morgun að íslenskum tíma.

Annar maður var handtekinn á vettvangi árásarinnar en sá var að taka upp á síma sinn og var með þrjá hnífa í fórum sínum. Hann er ekki sagður tengjast ökumanni bílsins né árásinni.

Ökumaðurinn var handtekinn af lögregluþjóni sem var ekki á vakt en hann meiddist á höndum og var fluttur á sjúkrahús. Ástæða þess að árásarmaðurinn ók á fólkið liggur ekki fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×