Erlent

Öryggisbúnaði komið fyrir í lestinni en var ekki í notkun

Samúel Karl Ólason skrifar
Rannsakendur eru meðal annars að skoða hvort að lestarstjórinn hafi verið annars hugar.
Rannsakendur eru meðal annars að skoða hvort að lestarstjórinn hafi verið annars hugar. Vísir/AFP
Tæknibúnaður sem kemur í veg fyrir að lestar geti farið upp fyrir leyfilegan hámarkshraða var um borð í lestinni sem fór út af sporinu í Washingtonríki á mánudaginn. Búnaðinum hafði nýlega verið komið fyrir en hafði ekki verið tekinn í notkun þegar slysið varð með þeim afleiðingum að þrír létust og fjöldi slasaðist.

Lestin var á 130 kílómetra í beygju þar sem hámarkshraðinn var fimmtíu kílómetrar þegar hún fór út af sporinu. Ekki er ljóst hvað varð þess valdandi að lestarstjórinn gætti ekki að hraðanum en hann var með lærling með sér í stjórnklefanum.

Rannsakendur eru meðal annars að skoða hvort að lestarstjórinn hafi verið annars hugar, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Á undanförnum 20 árum hafa rannsakendur bent á að umræddur tæknibúnaður hefði getað komið í veg fyrir minnst 25 lestarslys. Þar á meðal tvö slík á síðustu fjórum árum þar sem lestum var ekið á meira en tvöföldum hámarkshraða í beygjum.

Lestarfyrirtækjum hefur verið gert að koma tæknibúnaðinum fyrir í öllum lestum en það hefur gengið hægt og þá vegna mikils kostnaðar.


Tengdar fréttir

Lestinni var ekið allt of hratt

Minnst þrír létu lífið þegar lest fór út af sporinu á miklum hraða í Washington í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×