Fótbolti

Benni McCarthy: Ég er ekki dauður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benni McCarthy.
Benni McCarthy. Vísir/Getty
Benni McCarthy, þurfti að koma fram opinberlega til að láta vita af sér, eftir þráðlátan orðróm á samfélagsmiðlum um að hann hefði látist í bílslysi í London í gær.

Sænska blaðið Expressen segir frá þessu í dag en sagan fór á flug á Twitter í gær. Fjölmargir sögðu nefnilega frá því þar að Benni McCarthy væri allur og svo hávær varð umræðan að þessi 39 ára Suður-Afríkumaður kom inn á fésbókina í dag til þess að staðfesta það að hann væri á lífi.

„Ekki trúa fréttunum að ég hafi fundist látinn í London. Þetta eru falskar fréttir því ég er í fullu fjöri. Takk fyrir öll skilaboðin og væntumþykjuna. Þeir sem búa til falskar fréttir eins og þessa bera enga virðingu fyrir öðrum og þeirra tilfinningum,“ skrifaði Benni McCarthy á fésbókarsíðu sína.

Benni McCarthy spilaði á sínum tíma með Blackburn og West Ham í ensku úrvalsdeildinni en hann er markahæsti landsliðsmaður Suður-Afríku frá upphafi með 32 mörk.

McCarthy átti sín bestu tímabil með Porto 2003-04 undir stjórn Jose Mourinho þegar hann skoraði 24 mörk og liðið vann þrefalt og svo tímabilið 2006-07 með Blackburn Robers þegar hann skoraði 24 mörk í öllum keppnum.

McCarthy  endaði ferillinn hjá  Orlando Pirates í heimalandinu og náði að verða meistari áður en hann setti skóna upp á hillu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×