Innlent

Auðkenninu stolið: Fékk hraðasekt í Slóveníu en hafði aldrei komið þangað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ríkisborgararéttur Atla Steins dró þó svolítinn dilk á eftir sér en fyrir fáeinum vikum komst hann að því að auðkennisþjófur hefði nýtt sér norskar persónuupplýsingar sínar í grennd við Ljubljana í Slóveníu.
Ríkisborgararéttur Atla Steins dró þó svolítinn dilk á eftir sér en fyrir fáeinum vikum komst hann að því að auðkennisþjófur hefði nýtt sér norskar persónuupplýsingar sínar í grennd við Ljubljana í Slóveníu. Mynd/Jóhann Ágúst Jóhannsson.
Atli Steinn Guðmundsson, fyrrverandi fréttamaður og vöruflæðisstjóri hjá ConocoPhillips, flutti til Noregs árið 2010. Hann fékk norskan ríkisborgararétt eftir sjö ára búsetu í landinu en fyrir fáeinum vikum síðan komst hann að því að norsku auðkenni sínu hefði verið stolið og notað í Slóveníu.

Atli Steinn flutti ásamt konu sinni út til Noregs í maí 2010 í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi. Fyrstu sex árin bjuggu hjónin í Stafangri en fluttu til Óslóar í nóvember í fyrra. Dvölin í Noregi hefur reynst Atla Steini vel, svo vel að hann ákvað að gerast norskur ríkisborgari.

„Já, ég fór náttúrulega lengri leiðina, sjö ára regluna svokölluðu. Þá í rauninni get ég lýst ríkisborgararéttnum yfir ef ég er norrænn ríkisborgari, eftir að hafa búið í landinu í sjö ár,“ segir Atli Steinn í Bítinu á Bylgjunni í morgun.



Fékk hraðasekt í Slóveníu en hefur aldrei komið þangað

Ríkisborgararéttur Atla Steins dró þó svolítinn dilk á eftir sér en fyrir fáeinum vikum komst hann að því að auðkennisþjófur hefði nýtt sér norskar persónuupplýsingar sínar. Atli Steinn lýsti tildrögum málsins í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Ég fæ bréf frá lögreglunni í Ósló, bara núna fyrir tveimur eða þremur vikum, og þar skrifar undir rannsóknarlögreglumaður, eða kona öllu heldur, sem segir að þau þurfi að ná tali af mér og séu með skjöl sem tilheyri mér.“

Í ljós kom að málið snerist um hraðasekt en Atla Steini varð þá strax hugsað til þess þegar hann ók nokkuð greitt í fríi í Bandaríkjunum á síðasta ári.

„Ókei, hugsaði ég, og hugsaði strax til frísins í Bandaríkjunum í nóvember, ætli við höfum ekki verið á tvö hundruð frá Tallahassee til Miami til að ná fluginu, þannig að jæja, þetta er frá Bandaríkjunum. Ekkert mál, ég er sekur.“

Ekki reyndist þó um hraðasekt frá Bandaríkjunum að ræða heldur var Atli Steinn sagður hafa ekið of hratt í Slóveníu. Þangað hefur Atli Steinn aldrei komið. Þegar á stöðina var komið þurfti Atli Steinn þó frá að hverfa því málið var allt á slóvensku, sem enginn viðstaddur skildi.

„Svo þegar ég mæti þarna þá var ég sendur strax heim aftur því það gleymdist að panta slóvenskan túlk, þetta voru tvær blaðsíður á slóvensku. Þannig að hann er pantaður daginn eftir og ég mæti aftur klukkan níu á föstudegi og hann fer yfir þetta allt saman.“

Hraðasektin umrædda velktist um í kerfinu í nokkurn tíma en málið átti upptök sín í Ljubljana í Slóveníu og rataði svo til Óslóar í Noregi, þar sem Atli Steinn er búsettur.Vísir/AFP
Var staddur í matarboði þegar hann átti að hafa fengið sekt

Á þessum seinni fundi hafði Atli Steinn meðferðis dagbækur síðustu ára til að geta varist málinu. Í ljós kom að Atli Steinn átti að hafa ekið of hratt laugardaginn 23. júlí árið 2016 klukkan 19:53, rétt fyrir utan Ljubljana, höfuðborg Slóveníu.

„Þá var „ég“, innan gæsalappa, á Audi Q7 og mældist á 76 kílómetra hraða þar sem er 60 leyfilegt. Vegna skekkjumarka var þetta lækkað niður í 71 þannig að þeir eru að fara í það að senda hérna erindi alla leið til  Noregs fyrir 11 kílómetra yfir hámarkshraða, 80 evra sekt.“

Atli Steinn fletti dagsetningunni upp í dagbók sinni og sá að þetta tiltekna kvöld hafði hann verið í matarboði hjá íslensku pari í Sandnesi í Rogalandi í Noregi.

„Ég var með fimm vitni að því og allt svoleiðis. Rannsóknarlögreglukonan biður mig þá um að skila allavega inn greinargerð um málið og þau þurftu að svara lögreglunni í Slóveníu einhverju. Þannig að ég fer náttúrulega bara heim og byrja á þeirri greinargerð, einni á norsku fyrir lögregluna í Ósló og annarri á ensku til að senda beint til Slóveníu,“ segir Atli Steinn.

Grunar að um sé að ræða tölvuinnbrot

Atli Steinn ákvað þó að fletta upp fyrirtækinu sem skráð var fyrir umræddum Audi Q7-bíl. Bílstjóri bílsins hafði gefið upp allar upplýsingar úr norska ökuskírteini Atla Steins, sem Atli Steinn segist líklega aldrei hafa tekið upp úr veskinu.

Atli Steinn flutti til Noregs með konu sinni eftir hrun árið 2010. Hann ræddi ítarlega um reynslu sína af flutningunum við Vísi árið 2015.
Atli Steinn skrifaði fyrirtækinu að því búnu póst um málið en taldi ólíklegt að hann hefði eitthvað upp úr krafsinu. Eftir klukkutíma fékk Atli Steinn þó svar til baka þar sem hann var beðinn innilegrar afsökunar á málinu og fékk sektina þar að auki greidda.

„Þau segjast nú ekki geta svarað mér strax því allt starfsfólkið noti bílinn en það verði aldeilis farið ofan í saumana á þessu og svo bara greiðslukvittun á PDF, greidd sekt og málið dautt.“

Þar með lauk málinu eftir að hafa velkst um í kerfinu í nokkurn tíma. En hvernig hefur þetta eiginlega gerst?

„Mér dettur í rauninni bara eitt í hug, það er tölvuinnbrot hjá Statens Vegvesen, það er umferðarstofa og gefur út ökuskírteini,“ segir Atli Steinn.

„Það var allt rétt, útgáfudagur og allt saman.“

Furðar sig á því að enn séu notaðar kennitölur á Íslandi

Atli Steinn telur að um sé að ræða svokallaðan auðkennisstuld en slík mál hafa komið upp í auknum mæli með tilkomu internetsins.

„En þetta er náttúrulega bara skólabókardæmi um auðkennisstuld eða „ID-theft“ og hefur verið gríðarlega mikið í umræðunni.“

Hann furðar sig á því að Íslendingar gefi enn upp kennitölur sínar við ýmis tilefni en því hafi alveg verið hætt í Noregi af öryggisástæðum.

„Það er hægt að gera gríðarlega mikið með kennitölu og svo bara einhverjar smá viðbótarupplýsingar, þá ertu kominn með það að geta þóst vera einhver annar. Og hugsanlega framkvæmt einhverjar fjárhagsráðstafanir í nafni einhvers annars, sem er náttúrulega háalvarlegt.“

Viðtalið við Atla Stein má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×