Innlent

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svindli á bílasölusíðum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við netóværu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við netóværu. vísir/eyþór
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur borist fjölmargar tilkynningar um netóværu frá fólki sem selur bíla í gegnum sölusíður á netinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan segir svindlið flokkast undir svokallað traustsvindl þar sem notast er við samfélagsmiðla (e. Confidence scam). Svindlið felur í sér að seljanda berast einkennileg tilboð, annað hvort frá fólki í útlöndum eða frá fólki sem fullyrðir ranglega að það sé frá Íslandi.

Í skilaboðunum kemur fram að viðkomandi vilji ólmur kaupa bílinn og að hann sé tilbúinn að greiða fyrir bílinn uppsett verð. Þá er þess krafist að greiðslan fari í gegnum greiðsluþjónustu á borð við Paypal. Seljandinn fær þá staðfestingu um greiðslu sem þó hefur aldrei átt sér stað því skjölin eru fölsuð.

Í framhaldinu segist „kaupandinn“ hafa greitt of mikið og að hann vilji fá mismuninn endurgreiddan. Það er í þessum lið sem svindlið liggur, að sögn lögreglunnar, því eigandi bílsins hefur ekki fengið krónu greidda þegar skilaboðin eru send og tapar hann fjárhæðinni ákveði hann að endurgreiða hinum óprúttna aðila mismuninn.



Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur rétt að vara við þessu og að endingu biðlar hún til fólks sem lendir í svindlinu að hafa samband. Ákjósanlegast er að það hafi samband í gegnum Facebooksíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða sendi skilaboð á tölvupóstfangið abendingar@lrh.is.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×