Innlent

Tveir menn játuðu aðild að ræktun 600 kannabisplantna á Krókhálsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá aðgerðum lögreglu á vettvangi í gær. Lagt var hald á um 600 kannabisplöntur sem þykir óvenju mikið í málum sem þessum.
Frá aðgerðum lögreglu á vettvangi í gær. Lagt var hald á um 600 kannabisplöntur sem þykir óvenju mikið í málum sem þessum. Vísir
Tveir menn voru handteknir í tengslum við stóra kannabisræktun á Krókhálsi í gær. Þeir voru yfirheyrðir samdægurs og játuðu aðild að málinu, að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að um hafi verið að ræða 600 kannabisplöntur á misjöfnu stigi vaxtarferlisins. Lögregla mun nú beita sér fyrir frekara eftirliti með kannabisræktunum.

Mennirnir sem handteknir voru hafa ekki komið við sögu lögreglu áður. Þeim var sleppt að loknum yfirheyrslum í gær og höfðu þá játað aðild að ræktuninni. Fleiri hafa ekki verið handteknir í tengslum við málið.

Fíkniefnalögregla réðst til aðgerða í kjallara á iðnaðarhúsnæði við Krókháls 6 um hádegisbil í gær. Mikið magn kannabisplantna var gert upptækt og sömuleiðis búnaður tengdur ræktun sem virðist hafa verið umtalsverð.

Almennt verkferli að rannsaka tengsl við aðra brotastarfsemi

Lögregla kannar nú hvort mennirnir tveir, sem handteknir voru, tengist annarri brotastarfsemi en Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir það hefðbundið verkferli í rannsóknum á borð við þessa.

„Það er bara hið almenna í þessum rannsóknum, það þarf að skoða hvort einhverjir fleiri eigi þarna hlut að máli og hvort brotastarfsemin sé eitthvað víðtækari,“ segir Grímur í samtali við Vísi í dag.

Hann segir ekki hægt að segja til um á þessu stigi málsins hvort ræktunin tengist frekari brotastarfsemi.

Um að ræða óvenju margar plöntur

Þá var lagt hald á óvenju margar plöntur í gær miðað við þau mál sem upp hafa komið á undanförnum árum en Grímur segir þær þó hafa verið á misjöfnu stigi í vaxtarferlinu. Um var að ræða 200 plöntur sem tilbúnar voru til uppskeru og rúmlega 400 græðlinga.

„Þó var það þannig í máli sem kom upp í júní, frekar en júlí, að þar tókum við einhverjar 500 plöntur sem allar voru langt gengnar,“ segir Grímur.

Töluvert er nú um kannabisræktun á Íslandi, að sögn Gríms. Lögregla vill því beina heldur meiri kröftum í eftirlit með slíkum ræktunum en hefur verið gert undanfarið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×