Innlent

Alvarlegt vinnuslys hjá Vöku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið er komið á borð vinnueftirlitsins.
Málið er komið á borð vinnueftirlitsins. Vísir/Valli
Karlmaður á þrítugsaldri slasaðist illa þegar hann var að kaupa varahluti hjá Vöku í Skútuvogi á tíunda tímanum í morgun. Maðurinn var að ná í varahlut undan bíl með aðstoð starfsmanns Vöku þegar bíllinn féll á hann. Var hann fluttur á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að starfsmenn hafi verið búnir að ná bílnum ofan af manninum þegar lögreglu og sjúkralið bar að garði nokkrum mínútum eftir að óskað var eftir aðstoð. Maðurinn mun vera alvarlega slasaður en þó ekki í lífshættu.

Málið er komið á borð vinnueftirlitsins sem mun ásamt lögreglu skoða hvað fór úrskeiðis. Rætt verði við hinn slasaða þegar hann treystir sér til þess og svo verða vitni á svæðinu kölluð til skýrslutöku ef ástæða þykir til. Að sögn Jóhanns Karls verður skoðað hvort upptaka sé til af atvikinu og búnaðurinn sem notaður var til að lyfta bílnum tekinn út.

Bjarni Ingólfsson, framkvæmdastjóri Vöku, segir starfsfólk enn að jafna sig eftir atburði morgunsins sem hafi verið mikið sjokk. Starfsmaðurinn sem var með hinum slasaða hafi verið sendur í frí það sem eftir lifði dagsins. Honum verði boðin áfallahjálp. Verið sé að skoða alla ferla hjá fyrirtækinu til að koma í veg fyrir að slys sem þetta geti endurtekið sig.

Tæpar þrjár vikur eru síðan nítján ára piltur lést eftir slys á gámasvæðinu á Selfossi. Hann var að ná í varahluti undan bíl þegar tjakkur sem hann notaði til verksins gaf sig. Hann lést fjórum dögum síðar á bráðamóttöku Landspítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×