Innlent

Dregur úr ofbeldi á Litla-Hrauni

Sæunn Gísladóttir skrifar
Í varðstofunni er fylgst með föngunum allan sólarhringinn.
Í varðstofunni er fylgst með föngunum allan sólarhringinn. Vísir/Anton Brink
Svo virðist sem ofbeldismálum hafi fækkað síðustu árin á Litla-Hrauni samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun. Formaður Afstöðu, félags fanga, tekur undir og segir sína tilfinningu þá að ekki sé meira um ofbeldismál nú en áður.

Greint var frá því á föstudag í DV að til alvarlegra átaka hefði komið í útivistartíma fanga á Litla-Hrauni sem endaði með því að fangi beit efri vörina af samfanga sínum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er þetta eina ofbeldismálið á þessu ári sem komið hefur á borð lögreglunnar. Ofbeldismálum í fangelsinu hefur fækkað á síðustu 12 mánuðum og í fyrra kom einungis eitt mál á borð lögreglunnar.

Sé litið til agaviðurlaga vegna ofbeldis á Litla-Hrauni er ljóst að hlutfall ofbeldismála af agabrotum hefur minnkað. Samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun voru ofbeldismál 10,3 prósent árið 2015 og í fyrra var hlutfallið 8,5 prósent. Það sem af er árinu 2017 eru ofbeldismál 7,1 prósent. Tryggvi Ágústsson, deildarstjóri á Litla-Hrauni, tekur fram að flest mál sem falla undir ofbeldi í fangelsinu séu minniháttar.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga.aaa
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, segist hafa tilfinningu fyrir því að minna sé af agabrotum tengdum ofbeldi en áður. „Það er vissulega erfiður hópur í dag á Litla-Hrauni. En ég held að það sé ekkert meira um þessi mál en venjulega, ég hef ekki orðið var við það,“ segir hann.

„Yfirleitt hefur málunum fækkað frekar en annað. Þetta er alvarlegt sem gerðist fyrir helgi, en einsdæmi held ég,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann telur að ofbeldið hafi átt sér stað vegna persónulegra deilna. „Þetta er innanhópsrifrildi. Þarna erum við að sjá hvernig kerfið hefur brugðist í lífi manna. Þetta eru ljúfir menn en á sama tíma eru þeir veikir. Þarna hefði átt að bregðast við í barnæsku.“

Guðmundur Ingi telur þó brýnt að taka á þessum vanda. „Það er erfitt fyrir hinn almenna fanga og fangaverði að þurfa að vinna og búa í svona ástandi.“ 

Hann telur að ef eitthvað hafi aukist sé það neysla fíkniefna. „En það hefur ekki orðið meira ofbeldi,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×