Erlent

Bandarísk yfirvöld skipta um skoðun á Assad: Trump íhugar hernaðaríhlutun

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ljóst er að raunveruleikinn virðist hafa áhrif á skoðanir og stefnu Trump.
Ljóst er að raunveruleikinn virðist hafa áhrif á skoðanir og stefnu Trump. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, virðist nú hafa skipt um skoðun á hlutverki Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og framtíð hans sem leiðtogi ríkisins og íhugar nú hernaðaríhlutun. Er þetta í kjölfar myndskeiða af dauðsfalli almennra borgara eftir efnavopnaárás í landinu og hafa þau vakið mikinn óhug hjá forsetanum. 

Þá hefur utanríkisráðherrann, Rex Tillerson, einnig tjáð sig um ástandið í landinu og umrædda efnavopnaárás og segir hann að Assad eigi ekki að eiga neitt hlutverk við stjórn Sýrlands í framtíðinni.

Á blaðamannafundi með blaðamönnum um borð í flugvél sinni, sagði forsetinn að myndskeiðin sem hann hefði séð frá efnavopnaárásinni hefðu verið hræðileg og ljóst að stjórnarherinn bæri ábyrgð:

„Mér finnst það sem Assad gerði vera hræðilegt. Mér finnst það sem gerðist í Sýrlandi vera afskaplega skelfilegur glæpur. Þetta hefði ekki átt að gerast og það hefði ekki átt að leyfa þessu að gerast.“

Forsetinn hefur oft sagt að hann skilji ekki af hverju menn vilji að Assad láti af völdum í Sýrlandi. Það sé mikilvægara að berjast við hryðjuverkasamtökin Ríki Íslams og fá Assad með sér í lið.

Ljóst er að forsetanum hefur snúist hugur, þrátt fyrir að hann hafi ekki viðurkennt það með beinum hætti:

„Það sem gerðist í Sýrlandi er mannkyninu til skammar. Hann situr þarna og ég býst við því að hann sé að stjórna þessum hlutum, svo að eitthvað ætti að gerast.“

Forsetinn mun funda með James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, síðar í kvöld, þar sem þeir munu fara yfir málin og hvernig Bandaríkin geta brugðist við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×