Erlent

Dæmdur til að greiða skólanum sekt eftir að hafa farið með dóttur sína í frí í leyfisleysi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jon Platt ræðir við fjölmiðla eftir dóm Hæstaréttar í dag.
Jon Platt ræðir við fjölmiðla eftir dóm Hæstaréttar í dag.
Hæstiréttur Bretlands hefur dæmt Jon Platt, föður stúlku, til að greiða skóla stúlkunnar 120 pund í sekt vegna þess að hann fór með dóttur sína í frí til Flórída án þess að hafa fengið leyfi frá skólanum til að fara með barnið í frí. Sektin var upphaflega 60 pund.

Platt hafði áður unnið málið á lægra dómstigi en hann vildi ekki greiða sektina þar sem hann taldi að dóttir sín hefði mætt reglulega í skólann og gæti þess vegna farið í frí með fjölskyldunni í apríl 2015.

Kennarar og foreldrar um allt Bretland hafa fylgst náið með dómsmálinu þar sem það er talið hafa fordæmisgildi.

Lady Hale, varaforseti Hæstaréttar Bretlands, sagði að óleyfilegar fjarvistir gætu haft skaðleg áhrif, ekki aðeins á menntun barnsins heldur einnig á vinnu aðra nemenda.

„Ef einn nemandi getur verið tekinn úr skóla hvenær sem er þá á það líka við um aðra nemendur... Hvaða menntakerfi sem er væntir þess að reglum sé fylgt. Það að gera það ekki er ósanngjarnt gagnvart þeim foreldrum sem fylgja reglunum, hvað svo sem það kann að kosta eða hvaða óþægindi því fylgja fyrir þá foreldra sem vilja fá frí fyrir börnin sín.“

Í málinu var deilt um það hvað það þýðir samkvæmt breskum lögum „að mæta reglulega í skólann“ og samkvæmt dómi Hæstaréttar þýðir það ekki að mæta nógu oft í skólann heldur samkvæmt mætingarreglum viðkomandi menntastofnunar.

Málið fer nú aftur til lægra dómstigs þar sem kröfu Platt um frávísun málsins verður hafnað samkvæmt frétt Guardian um málið. Platt sagði þó eftir uppkvaðningu dómsins í dag að hann muni áfram berjast gegn því að borga sektina þegar málið fer aftur fyrir dóm.

Platt sagði að niðurstaða Hæstaréttar þýddi að foreldrar og forráðamenn væru ekki lengur dómarar í því hvað væri best fyrir börnin þeirra.

„Að mæta reglulega í skólann þýðir ekki lengur að mæta nægilega oft heldur að mæta á öllum þeim dögum og alltaf þegar skólinn krefst þess. Allar óleyfilegar fjarvistir, og líka það að vera of seinn í skólann, er nú glæpur,“ sagði Platt.

Nánar má lesa um málið á vef Guardian og vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×