Innlent

Ólíklegt að fjallskiladómur hafi mikil áhrif

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Valtýr segir að þegar maður eignist land þá taki maður bæði við hlunnindum og skyldum sem því fylgja. Fréttablaðið/Stefán
Valtýr segir að þegar maður eignist land þá taki maður bæði við hlunnindum og skyldum sem því fylgja. Fréttablaðið/Stefán
Ólíklegt er að niðurstaða Héraðsdóms Vesturlands, þess efnis að eigandi fjárlausrar jarðar án upprekstrarréttar þurfi ekki að greiða fjallskilagjöld, komi til með að hafa mikil áhrif á fjallskil sveitarfélaga landsins.

Dómur héraðsdóms var kveðinn upp fyrir rúmri viku en í honum segir að ástæða þess að jörðin sé ekki fjallskilagjaldsskyld sé sú að gjaldið renni meðal annars til viðhalds á girðingum og réttum.

„Lögin eru skýr. Fjallskil eru til þess að jafna út kostnað við leitun og hreinsun afrétta eða heimalanda sem nýtt eru sem afréttur,“ segir Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar og maður fróður um fjallskil.

Fjallskilanefnd í hverju umdæmi fyrir sig getur ákveðið með hvaða móti fjallskilin eru greidd. Sums staðar er það gert með peningagreiðslu en annars staðar uppfylla jarðeigendur skyldur sínar með því að skaffa menn í leitir.

„Þegar maður eignast land þá tekur maður bæði við hlunnindum og skyldum sem því fylgja. Þú getur ekki skilið þetta tvennt í sundur. Það myndi aldrei ganga upp. Hlunnindunum fylgja kvaðir, meðal annars til greiðslu fjallskila,“ segir Valtýr.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×