Erlent

Var á brimbretti á rúmsjó í 32 tíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Bryce fannst í sjónum á milli Skotlands og Írlands.
Bryce fannst í sjónum á milli Skotlands og Írlands. Vísir/AFP
Brimbrettakappinn Matthew Bryce fór á brimbretti við vesturströnd Skotlands skömmu fyrir hádegi á sunnudagsmorgun. Eftir að hann skilaði sér ekki aftur heim hófst umfangsmikil leit að honum, sem endaði nú í kvöld. Hann fannst á brimbretti sínu í rúmlega tuttugu kílómetra fjarlægð frá landi klukkan hálf átta í kvöld, að staðartíma, skömmu áður en myrkur skall á.

Bryce var í sjónum í um 32 klukkustundir og þykir stálheppinn að vera á lífi. Samkvæmt frétt BBC var hann ofkældur en með meðvitund þegar hann fannst. Þyrla Landhelgisgæslu Belfast fann hann og flutti á sjúkrahús í Norður-Írlandi.

Talskona gæslunnar segir að útbúnaður Bryce hafa bjargað lífi hans, en hann var klæddur í þykkan blautbúning. Umfangsmikil leit var gangsett og voru leitendur orðnir verulega áhyggjufullir þegar Bryce fannst. Hann hafði þá verið týndur lengi og í köldum sjó og eins og áður segir þá var stutt í að myrkur skylli á. Eftir það hefði verið erfitt að finna Bryce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×