Fótbolti

Beckham einu skrefi nær Miami-draumnum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Vísir/Getty
David Beckham hefur lengi stefnt á það að stofna fótboltalið í Miami-borg í Bandaríkjunum og nú er kappinn farinn að sjá ljósið.

Beckham og fjárfestingahópur hans hefur nú fengið samþykki fyrir því hjá yfirvöldum í Miami-Dade að eignast síðasta hlutann af landsvæðinu þar sem ætlunin er að byggja nýjan knattspyrnuleikvang. Tillagan var samþykkt með níu atkvæðum gegn fjórum í borgarstjórn.



 



Ætlunin er að byggja 25 þúsund sæta leikvang í Overtown hverfinu í Miami en Miami er 5,5 milljón manna borg á suður Flórídaskaga.

Það hefur tekið dágóðan tíma fyrir Beckham og fjárfestingahóp hans að finna liðinu samastað í Miami en fjögur ár eru síðan leitin hófst. Beckham og félagar munu borga níu milljónir dollara fyrir síðasta hlutann af landssvæðinu en þeir höfðu áður borgað 19 milljónir dollara fyrir stærri hlutann.

MLS-deildin hefur enn ekki formlega úthlutað liði Beckham sæti í deildinni en það er búist við að það gerist nú strax í þessum mánuði þar sem að vallarstæðið er nú tryggt.

Stefnan er að leikvangurinn verði nú tilbúinn árið 2020 en fjárfestingahópurinn varð að seinka því um eitt ár vegna þess hversu lengi það tók að ganga frá staðsetningu leikvangsins.

Það er langt síðan að Beckham fór að dreyma um það að eignast fótboltafélag í Bandaríkjunum. Þegar hann samdi við Los Angeles Galaxy árið 2007 þá setti hann klausu inn í samninginn sem heimilaði honum að koma með nýtt félag inn í MLS-deildina fyrir 25 milljónir dollara.

Árið 2013 ákvað Beckham og fjárfestingahópur hans síðan að þetta lið ætti að vera í Miami. Nú árið 2017 er ljóst að heimavöllur liðsins verður í Overtown hverfinu í Miami.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×