Innlent

Fólki vísað frá setningarathöfn Bókmenntahátíðar fyrir misskilning

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Athöfnin var haldin í ráðhúsinu í gær.
Athöfnin var haldin í ráðhúsinu í gær. Vísir/
Þeir sem hugðust sækja setningarathöfn Bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær, en voru án boðsmiða, var vísað frá. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir að ástæðan sé miskilningur, allir séu velkomnir á viðburði Bókmenntahátíðarinnar.

Rithöfundurinn Dagur Hjartarson vakti athygli málinu á Facebook í gær, þar sem hann sagði að sér þætti málið leiðinlegt. Á vefsíðu hátíðarinnar segir að ókeypis sé inn á viðburði og þeim öllum opnir.

Í tilkynningu frá Bókmenntahátíðinni segir að aðstandendum hátíðarinnar þyki afar leitt að gestum hafi verið vísað frá ráðhúsinu í gær.

„Skýringin er misskilningur milli hátíðar og húsráðenda – athöfnin átti svo sannarlega að vera opin öllum, líkt og undanfarin ár, og ekki stóð til að framvísa þyrfti boðskorti,“ segir í tilkynningunni.

Í samtali við Vísi segir Stella Soffía Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, nú sé verið að reyna að komast til botns í því hvernig miskilningurinn hafi orðið til að byrja með. Hún ítrekar að skipuleggjendum hátíðarinnar þyki leitt að gestum hafi verið vísað frá og þetta muni ekki koma fyrir aftur.

„Það stendur ekki til að þetta verði svona aftur. Það verður komið í veg fyrir að þetta endurtaki sig og þetta hefur aldrei verið svona, segir Stella Soffía.

Bókmenntahátíðin var sem fyrr segir sett í gær og stendur hún yfir fram á sunnudag. Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér en fjöldi erlendra sem innlendra höfunda tekur þátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×