Erlent

Vilja afglæpavæða heimilisofbeldi að hluta

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneska þingið.
Rússneska þingið. Vísir/AFP
Neðri hluti rússneska þingsins, Dúman, hefur kosið að hleypa frumvarpi sem ætlað er að afglæpavæða heimilisofbeldi að hluta í gegnum aðra umræðu í þinginu. Samkvæmt frumvarpinu yrðu einstaklingar dæmdir til að greiða sekt fyrir að beita fjölskyldu meðlimi ofbeldi í fyrsta sinn. 358 þingmenn kusu með frumvarpinu, tveir kusu gegn því og einn sat hjá.

Frumvarpið mun svara fara í gegnum þriðju umræðu á föstudaginn, svo mun það fara í gegnum efri deild þingsins áður en það endar á skrifborði Vladimir Putin, forseta.

Þingkonan Olga Batalina, ein af flytjendum frumvarpsins.Vísir/AFP
Þingkonan Olga Batalina, ein af flytjendum frumvarpsins, segir að frumvarpið muni ekki hlífa þeim sem gangi í skrokk á fjölskyldumeðlimum sínum. Allir þeir sem „skelfi fjölskyldur sínar“ og geri það reglulega muni þurfa að svara það.

Lögin fjalla um ofbeldi sem veldur ekki líkamlegum meiðslum.

Samkvæmt TASS fréttaveitunni, sem er í eigu rússneska ríkisins, var frumvarpið samið af þingmönnum eftir að lögum var breytt í fyrra á þann veg að refsað væri fyrir líkamsárásir með sektum. Það hafi leitt til umræðu um hvernig það gæti verið að það þyrfti bara að greiða sektir fyrir að ganga í skrokk á ókunnugum, en hægt væri að fara í fangelsi fyrir að beita fjölskyldumeðlimi ofbeldi.

Verði frumvarið að lögum verða sektir fyrir að beita fjölskyldumeðlimi ofbeldi einu sinni allt að 30 þúsund rúblur, eða um 55 þúsund krónur. Einnig verður hægt að dæma einstaklinga til 120 tíma samfélagsþjónustu eða 15 daga fangelsisvistar.

Fyrir ítrekuð brot er hægt að sekta aðila um tæpar 80 þúsund krónur, dæma þá til sex mánaða samfélagsþjónustu eða til þriggja mánaða fangelsisvistar.

Samkvæmt AP fréttaveitunni hafa um 200 þúsund manns skrifað undir undirskriftalista til að mótmæla frumvarpinu og mótmælendur mótmæltu við þinghúsið þegar frumvarpið fór í gegnum aðra umræðu í morgun.

Fréttaveitan vísar í nýlega könnun í Rússlandi þar sem 19 prósent þeirra sem svöruðu segja að það „geti verið réttlætanlegt“ eða slá eiginkonu, eiginmann eða barn við „ákveðnar kringumstæður“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×