Fótbolti

Urðu að fresta æfingu af því að of margir mættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Al Ahly.
Stuðningsmaður Al Ahly. Vísir/Getty
Egyptar hafa mikinn áhuga á fótbolta og árangur besta fótboltaliðs landsins á þessu tímabili hefur búið til sannkallað fótboltaæði í landinu.

Al Ahly liðið er komið alla leið í úrslitaleik Meistaradeildar Afríku þar sem liðið mætir Wydad Casablanca frá Marokkó.

Seinni úrslitaleikur liðanna fer fram í Marokkó á laugardaginn kemur en liðsmenn Al Ahly eru staddir heima í Egyptalandi í miðjum undirbúningi.

Það vilja margir sjá hetjurnar með berum augum og þetta sannaðist á æfingu Al Ahly í dag.

Tugþúsundir áhorfenda mættu á æfingu Al Ahly og fjöldinn var svo mikill að á endanum var ákveðið að fresta æfingunni.

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem BBC birti af æfingasvæðinu og þar er rauði liturinn svo sannarlega áberandi.





Al Ahly getur unnið Meistaradeild Afríku í níunda skiptið um helgina en það væri nýtt met.

Þetta er seinni úrslitaleikur liðanna en þeim fyrr lauk með 1-1 jafntefli í Alexandríu.

Leikmenn Al Ahly munu æfa einu sinni í viðbót í heimalandinu áður en þeir fljúga til Marokkó.

Al Ahly sló lið frá Túnis bæði út úr átta liða úrslitum og undanúrslitum. Í báðum tilfellum vann Al Ahly liðið seinni leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×