Innlent

Dæmdur í annað sinn fyrir að nauðga fjórtán ára stúlku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hæstiréttur dæmdi Ingvar Dór Birgisson fyrir nauðgun í dag.
Hæstiréttur dæmdi Ingvar Dór Birgisson fyrir nauðgun í dag. vísir/gva
Hæstiréttur dæmdi í dag Ingvar Dór Birgisson, 32 ára gamlan karlmann, í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga fjórtán ára stúlku í mars 2014. Þá var hann dæmdur til að greiða stúlkunni 1,2 milljónir í miskabætur. Í dómi Hæstaréttar segir að brot Ingvars hafi verið alvarlegt og ófyrirleitið.

Er þetta í annað sinn sem Ingvar Dór hlýtur dóm fyrir að nauðga fjórtán ára stúlku en í október 2015 var hann dæmdur í þriggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir það brot. Þau brot voru framin árið 2010.



Sjá einnig: Hótaði að dreifa nektarmyndum, greiddi fargjaldið í strætó og nauðgaði fjórtán ára stúlku


Ingvar Dór var dæmdur síðastliðið haust í héraði í tveggja og hálfs árs fangelsi vegna brotsins í mars 2014. Dómur Hæstaréttar nú er hegningarauki þar sem fyrri dómur héraðsdóms í nauðgunarmálinu frá 2010 var ómerktur í júní 2014.

Það var því ekki búið að ómerkja dóminn þegar Ingvar Dór framdi brotið í mars 2014 og vísar Hæstiréttur í það.

„Í 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir að verði maður, sem búið er að dæma fyrir eitt brot eða fleiri, uppvís að því að hafa framið önnur brot, áður en hann var dæmdur, skuli dæma honum hegningarauka er samsvari þeirri þyngingu hegningarinnar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu.

Þegar litið er til þess að dómurinn 5. september 2013 var ómerktur og ákærði sakfelldur með nýjum dómi 19. janúar 2015, sem eins og að framan greinir var staðfestur með dómi Hæstaréttar 1. október sama ár, verður við það að miða að brot ákærða nú hafi verið framið fyrir uppkvaðningu dóms í því máli. Ber því samkvæmt 78. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga, að dæma honum hegningarauka,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Að öðru leyti stendur dómur héraðsdóms óraskaður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×