Skoðun

Framtíðin er björt

Guðni Bergsson skrifar
Upplifunin síðasta sumar að fylgjast með okkar eigin landsliði á EM í Frakklandi bæði fyrir mig sem fyrrverandi landsliðsfyrirliða og okkur öll var stórkostleg. Næsta sumar munum við svo stolt fylgjast með kvennaliðinu á EM í Hollandi sem er að fara á sitt þriðja stórmót.

Grasrótin er grunnurinn

Þessi árangur endurspeglar það frábæra starf sem er unnið um allt land hjá aðildarfélögum KSÍ. Grasrótarstarfið sem unnið er í yngri flokkunum á Íslandi er til fyrirmyndar. Við eigum að halda áfram á sömu leið og efla enn frekar menntun þjálfara. KSÍ á einnig að huga sérstaklega að því að styðja við bakið á félögum á landsbyggðinni þar sem kostnaður vegna ferðalaga vegur þungt. Þá er mikilvægt að efla markaðsstarfið í kringum fótboltann hér heima. KSÍ og samstarfsaðilar eiga að sameinast um átak til að fjölga áhorfendum á leikjum, bæði karla og kvenna.

Spilum áfram í efstu deild

Yfirgnæfandi meirihluti tekna KSÍ eru styrkir frá EUFA, FIFA og tekjur af erlendum sjónvarpsrétti. Samkvæmt ársreikningi 2016 eru þetta 2,6 milljarðar króna, eða 88 prósent af öllum tekjum sambandsins! Það er eitt mikilvægasta verkefni KSÍ að standa vörð um þessar tekjur og leita leiða til að auka þær. Fyrir aðildarfélögin eru miklir hagsmunir í húfi. Við þurfum að nýta okkur meðbyrinn. Til þess þurfa allir að helga sig verkefninu 100 prósent. Formaður KSÍ á að vera sýnilegur og virkur í starfi hreyfingarinnar, fulltrúi fótboltans í grasrótinni, gagnvart aðildarfélögum og öllum hinum fjölmörgu hagsmunaaðilum sem KSÍ starfar með. Á undanförnum árum hefur umgjörð um fótbolta á Íslandi breyst mikið.

Fagmennskan hefur aukist. Við þurfum að byggja á því sem áunnist hefur og bæta það sem betur má fara. Ég vil leggja áherslu á gegnsæi og einfalt og skilvirkt skipurit utan um starfsemi KSÍ.

Ég hlakka til að hitta fulltrúa á ársþingi KSÍ, til skrafs og ráðagerða um það hvernig við getum saman bætt fótboltann á Íslandi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×