Enski boltinn

Moyes gæti tekið við Skotlandi

Moyes í sínum síðasta leik sem stjóri Sunderland.
Moyes í sínum síðasta leik sem stjóri Sunderland. vísir/getty
Svo gæti farið að David Moyes verði næsti landsliðsþjálfari Skotlands, ef marka má frétt The Times um málið í dag.

Samkvæmt blaðinu mun Moyes vera efstur á óskalista skoska knattspyrnusambandsins til að taka við Gordon Strachan, en staða hans sem þjálfari skoska liðsins er sögð afar viðkvæm.

Strachan gæti misst starfið sitt ef að Skotland tapar fyrir Englandi í undankeppni HM 2018 á heimavelli á laugardag.

Skotland er í fjórða sæti í F-riðli í undankeppninni með sjö stig. Skotland hefur unnið Slóveníu og Möltu, gert jafntefli við Litháen en tapað fyrir Slóvakíu og Englandi.

Staða Strachan þótti tæp í vetur en hann hélt starfinu sínu eftir að Chris Marten tryggði Skotum 1-0 sigur á Slóveníu í mars með marki undir lok leiksins.

Moyes náði góðum árangri með Everton á sínum tíma en fór þaðan til að taka við Manchester United þegar Sir Alex Ferguson lét af störfum. Hann entist stutt þar og hefur síðan þjálfað Real Sociedad og Sunderland án mikils árangurs.

Sunderland féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor en Moyes hætti þar sem forráðamenn félagsins voru ekki reiðubúnir að ganga að hans kröfum um hversu miklum fjármunum ætti að veita í liðið á næsta tímabili.


Tengdar fréttir

Moyes hættur hjá Sunderland

Sunderland er í stjóraleit en David Moyes sagði upp störfum hjá félaginu nú síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×