Innlent

Klifurkettir í Kópavogi

Hrund Þórsdóttir skrifar
Urðarhóll í Kópavogi er fyrsti heilsuleikskólinn á Íslandi. Leikskólinn hóf í dag samstarf við Íþróttasamband fatlaðra um notkun á svokallaðri YAP hreyfiþjálfun, en YAP stendur fyrir Young Athlete Project, sem var innleitt af Special Olympics samtökunum, til að stuðla að aukinni hreyfiþjálfun tveggja til sjö ára barna, ekki síst með skerta hreyfifærni. Leitað hefur verið samstarfs við leikskóla hér á landi og hafa viðbrögð verið mjög jákvæð.

„Í rauninni er þetta prógram þar sem við getum eflt börn sem hafa slake hreyfifærni og getum skimað út hvað í þeirra þroska þarf að efla meira en annað,” segir Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri á Urðarhóli.

En krakkarnir á Urðarhóli vígðu líka glæsilegan klifurvegg í dag. Þau voru spennt að prófa og virtust fara létt með þessar krefjandi æfingar, eins og sjá má í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt. Þar má líka sjá börnin taka lagið, enda er það við hæfi á hátíðisdegi eins og þessum.

Íris Ósk Kjartansdóttir, íþróttakennari á Urðarhóli hafði gengið með þann draum í maganum í nokkur ár að setja upp klifurvegg á leikskóla, og nú fá börnin að njóta góðs af framtakssemi hennar og annarra starfsmanna skólans. Eins og Sigrún bendir á rímar veggurinn líka vel við markmið skólans um að efla samhæfingu, jafnvægi, kraft og þor.

„Og börnin hafa gaman af þessu. Þau gera þetta í leik og gleði og þá verður allt miklu skemmtilegra,” segir Sigrún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×