Erlent

Foreldri fái rétt á við ríkisborgara

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sé þetta barn með ríkisborgararétt í Evrópusambandsríki, en faðirinn ekki, á hann rétt á barnabótum í viðkomandi ríki.
Sé þetta barn með ríkisborgararétt í Evrópusambandsríki, en faðirinn ekki, á hann rétt á barnabótum í viðkomandi ríki. Nordicphotos/Getty
Foreldri barna með ríkisborgararétt Evrópusambandsríkja eiga að njóta sömu réttinda og ríkisborgarar ríkja innan Evrópusambandsins. Þetta staðfesti dómur Evrópudómstólsins í gær í máli venesúelskrar konu sem á barn með hollenskan ríkisborgararétt.

Konan kom upprunalega til Hollands sem ferðamaður en eignaðist barn með Hollendingi árið 2009. Þau slitu samvistum árið 2011 og sá konan ein fyrir barninu. Var henni neitað um atvinnuleysis- og barnabætur á grundvelli þess að hún væri ekki ríkisborgari.

Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að aðildarríki Evrópusambandsins mættu ekki taka ákvarðanir sem brytu á réttindum fjölskyldu ríkisborgara Evrópusambandsins sem í þessu tilfelli er hið hollenska barn.

Rök dómstólsins fyrir dómnum voru meðal annars þau að öll ógn við réttindi móðurinnar kæmu samtímis í veg fyrir að barnið nyti sinna réttinda sem ríkisborgari.

BBC greinir frá því að dómurinn sé sérstaklega merkilegur sökum væntanlegs brotthvarfs Bretlands úr Evrópusambandinu. Fjöldi Breta búi í öðrum aðildarríkjum sambandsins og eigi börn með ríkisborgurum viðkomandi landa.

Afstaða Evrópusambandsins í væntanlegum samningaviðræðum við Breta er sú að ákvörðun um stöðu breskra ríkisborgara í löndum Evrópusambandsins verði að vera forgangsmál í samningaviðræðunum. Hið sama gildi um ríkisborgara Evrópusambandsríkja sem búsettir séu á Bretlandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×